Nahúm 3 - Biblían (2007)

1Vei hinni blóðseku borg

sem full er af svikum og ránsfeng

og lætur ekki af ofbeldi.

2Svipusmellir. Hjólaskrölt.

Hófatak. Vagnagnýr.

3Riddarar geysast fram,

sverð blika, spjót leiftra.

Fjöldi valfallinna, kestir af hræjum.

Óteljandi eru líkin,

um þau hrasa menn.

4Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar,

hinnar fögru og fjölkunnugu,

sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu

og kynstofna með töfrum sínum,

5vitja ég þín, segir Drottinn allsherjar,

og ég mun bregða klæðafaldi þínum upp að framan

og sýna þjóðunum nekt þína

og konungsríkjunum blygðun þína.

6Ég mun varpa yfir þig saur

og svívirða þig

svo að þú verðir öðrum víti til varnaðar.

7Þá hrökkva þeir undan

sem líta þig og segja:

„Níníve er lögð í eyði.

Hver aumkar hana nú?“

Hvar ætti ég að leita þér huggara?

8Er þér, Níníve, vandara um en Nó-Ammón

sem lá við Nílarfljót, umflotin vatni,

og átti sér fljótið að vígi

og vatnið að varnarvirki?

9Styrk sinn sótti hún til Eþíópíumanna

og hinna óteljandi Egypta.

Pútmenn og Líbíumenn voru hjálparlið hennar.

10Og þó flæmdist hún í útlegð

og varð að þola herleiðingu,

ungbörn hennar voru einnig lamin í hel

á öllum gatnamótum.

Hlutkesti var varpað um fyrirmenn hennar

og allir höfðingjar hennar voru reyrðir í fjötra.

11Eins verður þú ofurölvi,

eins verður þú magnþrota,

eins muntu leita hælis

fyrir fjandmönnum þínum.

12Öll virki þín eru sem fíkjutré

sem bera vorfíkjur.

Séu þau hrist falla þær

í munn hvers sem vill.

13Hermenn þínir eru sem konur,

hlið lands þíns hafa lokið sér upp sjálf

fyrir óvinum þínum,

slagbrandarnir hafa orðið eldi að bráð.

14Austu þér vatnsforða fyrir umsátina,

styrktu varnarvirki þín.

Gakktu í leireðjuna, troddu leirinn

og hafðu leirmótin tiltæk.

15Þar mun eldurinn eyða þér,

sverðið tortíma þér,

eyða þér eins og engisprettufaraldur,

jafnvel þótt lið þitt verði sem engisprettusægur,

iðandi grasvargur.

16Kaupmenn þínir voru fleiri en stjörnur himinsins,

en sem grasvargur skiptu þeir hömum og hurfu á braut.

17Verðir þínir voru sem engisprettur

og herforingjar þínir eins og skordýrasægur

sem sest á steingarða á svölum degi

en flýgur burt þegar sólin birtist

og enginn veit hvað af honum verður.

18Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur,

leiðtogar þínir sofa.

Menn þínir hafa tvístrast um hæðirnar

og enginn er til að safna þeim saman.

19Engin bót verður ráðin á meinsemd þinni,

sár þitt er ólæknandi.

Allir sem fá tíðindin um þig

munu klappa saman lófum

því að hver hefur ekki mátt þola

linnulausa illsku þína?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help