13 Hér fer á eftir afrit af bréfinu: „Stórkonungurinn Artaxerxes sendir kveðju landstjórum í skattlöndunum eitt hundrað tuttugu og sjö, frá Indlandi til Eþíópíu, og öðrum þeim sem gæta þess sem vort er.
14 Svo er um marga sem hlotið hafa miklar vegtyllur sakir örlætis velgjörðamanna sinna að þeir fyllast ofmetnaði.
15 Og það er ekki nóg með það að þeir hafi leitast við að vinna þegnum vorum mein vegna þess að þeir hafa ekki haft bein til að bera velsæld sína heldur hafa þeir jafnvel bruggað vélráð gegn velgjörðamönnum sínum.
16 Þeir láta ekki heldur við það sitja að gera þakkarskuld sína við menn að engu heldur láta þeir hávært skjall illa þenkjandi manna fylla sig þeim hroka að þeir telja sig geta umflúið refsidóm þess Guðs sem sér allt og hatar hið illa.
17 Oftlega hafa þeir sem fara með völd ratað í óbætanlega ógæfu og orðið meðsekir um dauða saklausra manna fyrir orð vina sem þeir höfðu fengið stjórn í hendur.
18 Með lygum og fláttsemi drógu þeir einlæga góðvild valdhafanna á tálar.
19 Þetta getur ekki aðeins að líta í fornum sögnum sem til vor hafa borist heldur eru ljós dæmi fyrir augum yðar um það hvernig illska óverðugra valdamanna hefur leitt til svívirðilegrar óhæfu.
20 Því ber oss héðan í frá að leggja kapp á að sérhver maður njóti friðsams og óhults lífs.
21 Gerum vér því nauðsynlegar breytingar og dæmum um það sem oss er orðið kunnugt en undantekningarlaust án óbilgirni.
22 Haman Hamadatsson var Makedóníumaður, í raun réttri alls óskyldur Persum, og þekkti ekki þá mildi sem vér eigum. En vér tókum honum vel
23 og fór hann eigi varhluta af þeirri góðvild sem vér berum til manna af öllu þjóðerni. Naut hann hennar í slíkum mæli að hann var lýstur faðir vor og honum auðsýnd lotning af öllum sakir þess að hann gekk næst hásæti konungs.
24 En hann gat ekki borið upphefð sína og leitaðist hann við að ræna oss bæði ríki og lífi.
25 Með slægð og vélabrögðum krafðist hann þess að fá að deyða Mardokaí, lífgjafa minn og stöðugan velgjörðamann, og einnig Ester, hina flekklausu sem með mér ríkir, og alla þjóð þeirra.
26 Með þessum brögðum hugðist hann einangra oss og koma völdum Persa í hendur Makedóníumanna.
27 En vér komumst að raun um að Gyðingar, sem þessi erkifantur hafði framselt til útrýmingar, eru hreint engir illvirkjar heldur breyta þeir eftir hinum réttlátustu lögum.
28 Þeir eru börn hins mesta og æðsta lifandi Guðs sem kemur hinni bestu skipan á ríkið í vora þágu og forfeðra vorra.
29 Gerið því svo vel að fara ekki eftir bréfinu sem sent var af Haman Hamadatssyni.
30 Enda hefur hann, sem kom þessu til leiðar, verið hengdur við borgarhlið Súsa ásamt fjölskyldu sinni og með því fengið skjótan og maklegan dóm af almáttugum Guði.
31 Setjið þess vegna hvarvetna á opinberum stöðum upp afrit af bréfi þessu. Leyfið Gyðingum að breyta eftir eigin lögum
32 og veitið þeim stuðning á neyðartíma, þrettánda degi tólfta mánaðarins adar, til að verjast þeim sem sýna þeim fjandskap þann dag.
33 Einmitt þeim degi hefur Guð, sem öllu ræður, umbreytt úr degi útrýmingar í dag fagnaðar fyrir sína útvöldu.
34 Þér skuluð einnig taka þennan dag í tölu merkishátíða yðar og fagna stórum á þeim degi
35 svo að hann verði bæði nú og framvegis minning um björgun vora og allra konunghollra Persa en áminning um glötun þeirra sem sitja á svikráðum við oss.
36 Án undantekningar skal sérhverri borg og hverju skattlandi, sem eigi breytir eftir þessu, gereytt með sverði og þvílíku heiftarbáli að það verður ekki einungis óbyggilegt mönnum heldur munu dýr og fuglar forðast það um alla framtíð.
37 Afrit af bréfinu skulu sett upp á áberandi stöðum um gervallt ríkið og allir Gyðingar skulu undir það búnir að berjast við óvini sína þennan dag.“
38 Riddarar hröðuðu sér af stað til að framkvæma skipun konungs. Voru fyrirmælin einnig gerð opinber í Súsa.
39 Mardokaí gekk út, klæddur konunglegum skrúða. Hann bar gullsveig og vefjarhött úr purpurarauðu líni. Íbúar Súsa glöddust þegar þeir sáu hann.
40 Hjá Gyðingum ríkti birta og gleði.
41 Í hverri borg og skattlandi þar sem tilskipunin var birt, hvarvetna þar sem hún var fest upp, glöddust Gyðingar og fögnuðu. Þeir drukku og voru glaðir. Margir heiðingjar létu umskera sig og gengu gyðingdómi á hönd af ótta við Gyðingana.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.