Prédikarinn 7 - Biblían (2007)

Spekiorð

1Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl

og betri er dauðadagur en fæðingardagur.

2Betra er að ganga í sorgarhús

en að ganga í veislusal

því að það eru endalok sérhvers manns

og sá sem lifir hugfestir það.

3Betri er hryggð en hlátur

því að þegar andlitið er dapurt

líður hjartanu vel.

4Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi

en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.

5Betra er að hlýða á ávítur viturs manns

en á lofsöng heimskra manna.

6Hlátur heimskingjans er eins og

þegar snarkar í hrísi undir potti.

Einnig það er hégómi.

7Kúgun gerir vitran mann að heimskingja

og mútur spilla hjartanu.

8Betri er endir máls en upphaf,

betri er þolinmóður maður en þóttafullur.

9Vertu ekki auðreittur til reiði

því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.

10Segðu ekki: Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru betri en þessir?

Ekki er það skynsamlegt að þú spyrjir svo.

11Speki er eins góð og óðal

og ávinningur fyrir þá sem sólina líta.

12Því að spekin veitir forsælu

eins og silfrið veitir forsælu

en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir

að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.

13Skoða þú verk Guðs.

Hver getur gert það beint sem hann hefur gert bogið?

14Vertu í góðu skapi á góðum degi

og hugleiddu þetta á illum degi:

Guð hefur gert þennan dag alveg eins og hinn

til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.

Ver ekki of réttlátur

15Allt hef ég séð á minni fánýtu ævi:

Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu

og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni.

16Vertu ekki um of réttlátur

og stærðu þig ekki af speki,

hví vilt þú tortíma sjálfum þér?

17Breyttu ekki of óguðlega

og vertu ekki heimskur,

hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn?

18Það er gott að þú haldir fast við þetta

en sleppir þó ekki hendinni af hinu

því að sá sem óttast Guð kemst hjá því öllu.

19Spekin veitir vitrum manni meiri mátt en tíu valdhafar sem eru í borginni.

20Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.

21Gefðu ekki heldur gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir ekki þræl þinn bölva þér.

22Sjálfur veistu að þú hefur einnig oft bölvað öðrum.

23Allt þetta hef ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur en hyggindin eru hulin.

24Fjarlægt er það sem er og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?

25Ég sneri mér og einbeitti mér að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst að guðleysi er heimska og heimska vitleysa.

26Og ég fann að konan er biturri en dauðinn því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast kemst undan henni en syndarinn verður fanginn af henni.

27Sjá, þetta hef ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum.

28Það sem ég hef leitað að án afláts en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hef ég fundið en konu hef ég aldrei fundið á meðal allra þeirra.

29Sjá, þetta eitt hef ég fundið, að Guð hefur skapað mennina rétt en vangaveltur þeirra urðu of margar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help