1Þennan sama dag gaf Artaxerxes konungur Ester allar eigur rógberans Hamans. Mardokaí var og kallaður á konungsfund því að Ester hafði skýrt frá skyldleika þeirra.
2Konungur tók innsiglishring þann sem hann hafði tekið af Haman og lét Mardokaí hafa hann en Ester setti Mardokaí yfir allar eigur Hamans.
3Ester kom síðan að máli við konung. Lét hún sig falla niður fyrir fótum hans og bað hann að hindra ill ráð Hamans og allt sem hann hafði ætlað að gera á hlut Gyðinga.
4Konungur rétti gullna veldissprotann í áttina að Ester sem reis á fætur og stóð frammi fyrir konungi.
5Tók Ester til máls og sagði: „Ef þér þóknast og njóti ég náðar sendu þá og afturkallaðu bréfin sem Haman sendi með fyrirmælum um að útrýma öllum Gyðingum í ríki þínu.
6Hvernig á ég að geta horft á eyðingu þjóðar minnar og hvernig ætti ég að geta lifað ef landar mínir glatast?“
7En konungur svaraði Ester: „Þar sem ég hef gefið þér allar eigur Hamans að gjöf og hengt hann í gálga fyrir að ráðast gegn Gyðingum, hvað viltu frekar?
8Skrifið þið eins og hann gerði í mínu nafni það sem ykkur þóknast og setjið innsigli mitt undir. Því að því sem skrifað er að boði konungs og staðfest með innsigli mínu getur enginn sett sig upp á móti.“
9Þá voru ritararnir kallaðir til. Var það á tuttugasta og þriðja degi í fyrsta mánuði þess árs, mánuðinum nísan. Gyðingunum var skrifað um allt sem embættismönnum og landstjórum var fyrirskipað í sérhverju af skattlöndunum eitt hundrað tuttugu og sjö frá Medíu til Eþíópíu. Ritað var til hvers skattlands á tungu þess lands.
10Skrifað var í nafni konungs og staðfest með innsigli hans og bréfin send með hraðboðum.
11Í þeim var kunngjört að konungur hvetti Gyðinga til að fylgja eigin lögum í öllum borgum ríkisins og til að verja hendur sínar og gera það sem þeim þóknaðist við andstæðinga sína og óvini.
12Þetta skyldi kunngjört í öllu ríki Artaxerxesar á einum og sama degi, hinum þrettánda í tólfta mánuði ársins sem er mánuðurinn adar.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.