1Í fyrsta mánuðinum komu Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, til eyðimerkurinnar Sín og fólkið settist að í Kades. Þar dó Mirjam og þar var hún grafin.
2Af því að söfnuðurinn hafði ekkert vatn snerist hann gegn Móse og Aroni.
3Fólkið ásakaði Móse og sagði: „Óskandi væri að við hefðum dáið eins og bræður okkar sem dóu frammi fyrir augliti Drottins.
4Hvers vegna hafið þið leitt söfnuð Drottins út í þessa eyðimörk svo að við deyjum hér ásamt fénaði okkar?
5Hvers vegna hafið þið leitt okkur upp frá Egyptalandi og farið með okkur á þennan ömurlega stað þar sem hvorki korn né fíkjur vaxa, vínber né granatepli og þar sem ekkert vatn er til drykkjar?“
6Móse og Aron gengu frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Þá birtist þeim dýrð Drottins.
7Drottinn ávarpaði Móse og sagði:
8„Taktu stafinn og stefndu söfnuðinum saman, þú og Aron, bróðir þinn. Þið skuluð ávarpa klettinn fyrir augum þeirra, þá mun hann láta vatn sitt streyma fram. Þá færðu vatn úr klettinum og getur gefið söfnuðinum og fénaði hans að drekka.“
9Móse sótti þá stafinn sem var frammi fyrir augliti Drottins eins og honum hafði verið boðið.
10Síðan stefndu þeir Móse og Aron söfnuðinum saman fyrir framan klettinn og Móse sagði við þá: „Hlýðið nú á, þverúðugu menn. Getum við látið vatn renna úr þessum kletti handa ykkur?“
11Því næst lyfti Móse hendi sinni og sló tvisvar á klettinn með staf sínum. Þá streymdi út mikið vatn svo að bæði söfnuðurinn fékk að drekka og fé hans.
12En Drottinn sagði við Móse og Aron:
„Af því að þið treystuð mér ekki og vitnuðuð ekki um heilagleika minn í augsýn Ísraelsmanna skuluð þið ekki leiða þennan söfnuð inn í landið sem ég gef honum.“
13Þetta var Meríbavatn þar sem Ísraelsmenn ásökuðu Drottin og hann birti þeim heilagleika sinn.
Ísraelsmenn og Edómítar14Móse sendi nú boðbera frá Kades til konungsins í Edóm og lét segja: „Svo segir bróðir þinn, Ísrael: Þú veist sjálfur um allar þær þrautir sem við höfum mátt þola.
15Feður okkar fóru niður til Egyptalands og við bjuggum langa hríð í Egyptalandi. En Egyptar léku okkur og feður okkar grátt.
16Þá hrópuðum við til Drottins. Hann heyrði hróp okkar, sendi engil og leiddi okkur út úr Egyptalandi. Nú erum við í Kades, borg við landamæri þín.
17Leyfðu okkur nú að fara um land þitt. Við munum hvorki fara um akra né víngarða og við munum ekki drekka vatn úr brunnum heldur fara Konungsleiðina og hvorki víkja til hægri né vinstri fyrr en við erum komin gegnum land þitt.“
18En Edóm svaraði honum: „Þú mátt ekki fara um land mitt, annars held ég gegn þér með sverð á lofti.“
19Þá sögðu Ísraelsmenn: „Við ætlum að fylgja þjóðveginum. Og ef við drekkum vatn þitt, ég og fénaður minn, mun ég greiða það sem upp er sett. Ég bið ekki um annað en að fara fótgangandi gegnum land þitt.“
20Edóm svaraði: „Þú mátt ekki fara um landið.“ Edóm hélt því næst gegn Ísrael með miklum her og öflugum.
21Þegar Edóm neitaði Ísrael um að fara inn í landið vék Ísrael af leið frá honum.
Dauði Arons22Ísraelsmenn lögðu af stað frá Kades og allur söfnuðurinn kom að fjallinu Hór.
23Þá talaði Drottinn til Móse og Arons á Hórfjalli við landamæri Edóms og sagði:
24„Aron skal nú safnast til forfeðra sinna því að hann skal ekki koma inn í landið sem ég hef gefið Ísraelsmönnum því að þið risuð gegn skipun minni við Meríbavatn.
25Sæktu Aron og son hans, Eleasar, og farðu með þá upp á Hórfjall.
26Færðu Aron þar úr klæðum sínum og klæddu Eleasar, son hans, í þau. Aron skal safnast til forfeðra sinna og deyja þar.“
27Móse gerði það sem Drottinn hafði boðið honum. Þeir fóru upp á Hórfjall í augsýn alls safnaðarins.
28Síðan færði Móse Aron úr klæðum sínum og klæddi Eleasar, son hans, í þau. Aron dó þarna á fjallstindinum en Móse og Eleasar gengu niður af fjallinu.
29Þegar öllum söfnuðinum varð ljóst að Aron var dáinn grét allur Ísraelslýður hann í þrjátíu daga.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.