1Í þrjú ár var enginn ófriður milli Arams og Ísraels.
2En á þriðja ári fór Jósafat Júdakonungur til fundar við Ísraelskonung.
3Þá sagði konungur Ísraels við hirðmenn sína: „Þið vitið vel að Ramót í Gíleað er okkar eign. Samt gerum við ekkert til að ná henni aftur af Aramskonungi.“
4Því næst sagði hann við Jósafat: „Vilt þú koma með mér og herja á Ramót í Gíleað?“ „Ég geri eins og þú,“ svaraði Jósafat Ísraelskonungi, „mín þjóð eins og þín þjóð, mínir hestar eins og þínir hestar.“
5Jósafat sagði síðan við Ísraelskonung: „Leitaðu fyrst svara hjá Drottni.“
6Ísraelskonungur safnaði þá spámönnunum saman, um það bil fjögur hundruð mönnum, og spurði: „Á ég að halda gegn Ramót í Gíleað og herja á hana eða á ég ekki að gera það?“ Þeir svöruðu: „Farðu, Drottinn mun selja konungi borgina í hendur.“
7Þá spurði Jósafat: „Er enginn annar spámaður Drottins hér sem við getum leitað frétta hjá?“
8Ísraelskonungur svaraði: „Jú, enn er einn eftir. Hjá honum getum við leitað úrskurðar Drottins. En ég hata hann því að hann spáir mér aldrei góðu heldur illu einu. Hann heitir Míka Jimlason.“ Jósafat sagði þá: „Þetta ætti konungur ekki að segja.“
9Ísraelskonungur kallaði þessu næst á hirðmann og sagði: „Sæktu Míka Jimlason þegar í stað.“
10Konungur Ísraels og Jósafat, konungur Júda, sátu nú hvor í sínu hásæti klæddir skikkjum á þreskivelli við borgarhlið Samaríu. Allir spámennirnir voru í spámannlegri leiðslu frammi fyrir þeim.
11Sedekía Kenaanason hafði gert sér horn úr járni og sagði: „Svo segir Drottinn: Með þessum hornum munt þú stanga Arameana þar til þú hefur gereytt þeim.“
12Allir hinir spámennirnir fluttu sömu boð: „Þú skalt ráðast á Ramót í Gíleað og þú munt sigra. Drottinn mun selja borgina konunginum í hendur.“
13Sendiboðinn, sem hafði farið til að sækja Míka, sagði við hann: „Orð spámannanna eru öll sem eitt konungi í vil. Hafðu orð þín samhljóða orðum þeirra og vertu vilhallur konungi.“
14En Míka svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir mun ég einungis flytja konungi það sem Drottinn segir mér.“
15Þegar Míka kom til konungs sagði konungur við hann: „Míka, eigum við að ráðast gegn Ramót í Gíleað eða eigum við að láta það ógert?“ Hann svaraði: „Farðu, þú munt sigra. Drottinn mun selja borgina konungi í hendur. “
16En konungur svaraði: „Hversu oft þarf ég að láta þig heita því að segja mér einungis sannleikann í nafni Drottins?“
17Þá sagði Míka: „Ég sá allan Ísrael tvístraðan um fjöllin eins og hjörð án hirðis og Drottinn sagði: Þeir hafa enga leiðtoga lengur. Fari þeir í friði, hver heim til sín.“
18Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: „Var það ekki sem ég sagði: Hann spáir mér aldrei góðu heldur illu einu?“
19„Heyrðu þá orð Drottins,“ sagði Míka: „Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan her himinsins standa honum til hægri og vinstri handar.
20Drottinn spurði: Hver vill tæla Akab til að fara upp eftir svo að hann falli við Ramót í Gíleað? Þá stakk einn upp á þessu en annar hinu.
21Að lokum gekk andi nokkur fram, nam staðar frammi fyrir Drottni og sagði: Ég skal tæla hann. Hvernig? spurði Drottinn.
22Hann svaraði: Ég fer og gerist lygaandi í munni allra spámanna hans. Þá sagði Drottinn: Þú skalt tæla hann, þú getur gert það. Farðu og gerðu þetta.
23Þannig hefur Drottinn nú lagt lygaanda í munn öllum þessum spámönnum þínum því að hann hefur ákveðið að valda þér böli.“
24Þá gekk Sedekía Kenaanason fram og laust Míka kinnhest og sagði: „Hvernig fær þetta staðist? Á andi Drottins að hafa yfirgefið mig til þess að tala við þig?“
25Míka svaraði: „Þú munt komast að raun um það sama dag og þú flýrð úr einu herbergi í annað til þess að fela þig.“
26En Ísraelskonungur skipaði: „Grípið Míka og farið með hann til Amons, hershöfðingja borgarinnar, og Jóasar konungssonar
27og segið: Svo segir konungurinn: Varpið manni þessum í fangelsi. Gefið honum ekkert annað en brauð og vatn af skornum skammti þar til ég kem aftur heill á húfi.“
28Þá sagði Míka: „Komir þú aftur heill á húfi hefur Drottinn ekki talað af munni mínum.“ Hann sagði enn fremur: „Heyrið það, allir.“
Dauði Akabs29Ísraelskonungur og Jósafat, konungur í Júda, héldu nú til Ramót í Gíleað.
30Ísraelskonungur sagði þá við Jósafat: „Ég ætla að dulbúast áður en ég fer til orrustu en þú skalt bera þín eigin klæði.“ Konungur Ísraels dulbjóst síðan og hélt til orrustu.
31Konungur Arams hafði skipað vagnstjórum sínum, sem voru þrjátíu og tveir, á þessa leið: „Ráðist ekki á neinn, hvorki háan né lágan, nema Ísraelskonung einan.“
32Þegar vagnstjórarnir sáu Jósafat hugsuðu þeir með sér: „Þetta er vafalaust konungur Ísraels.“ Þeir snerust því þegar gegn honum og réðust á hann. Þegar Jósafat hrópaði á hjálp
33sáu vagnstjórarnir að hann var ekki konungur Ísraels. Hurfu þeir þá frá honum.
34Maður nokkur spennti boga, skaut af handahófi og hitti Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Konungur sagði þá við vagnstjóra sinn: „Snúðu við og farðu með mig úr bardaganum því að ég er sár.“
35Þó að orrustan magnaðist þennan dag stóð konungurinn uppréttur í vagninum andspænis Aram. En blóðið úr sárinu rann niður í vagninn. Um kvöldið dó hann.
36Við sólarlag barst hróp um herbúðirnar: „Sérhver snúi aftur til borgar sinnar og til lands síns.“
37Þannig dó konungurinn. Hann var fluttur til Samaríu og grafinn þar.
38En hundar sleiktu blóðið og skækjur þvoðu sér upp úr því þegar vagninn var skolaður í tjörn Samaríu, eins og orð Drottins hafði áður boðað.
39Það sem ósagt er af sögu Akabs og verkum hans, fílabeinshúsinu, sem hann reisti, og öllum borgunum, sem hann víggirti, er skráð í annála Ísraelskonunga.
40Akab var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og varð Ahasía, sonur hans, konungur eftir hann.
Jósafat Júdakonungur41Jósafat, sonur Asa, varð konungur yfir Júda á fjórða stjórnarári Akabs Ísraelskonungs.
42Jósafat var þrjátíu og fimm ára þegar hann varð konungur og hann ríkti tuttugu og fimm ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Silhídóttir.
43Hann breytti í öllu eins og Asa faðir hans og vék í engu frá því. Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins.
44Þó hurfu fórnarhæðirnar ekki og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum.
45Jósafat hélt frið við Ísraelskonung.
46Það sem ósagt er af sögu Jósafats og afrekum hans og hernaði er skráð í annála Júdakonunga.
47Hann útrýmdi úr landinu hofskækjunum sem höfðu orðið eftir á stjórnarárum Asa, föður hans.
48Enginn konungur var í Edóm á þessum tíma.
49En landstjóri konungs hafði látið smíða Tarsisskip til þess að fara til Ófír eftir gulli en komst hvergi því að skipin brotnuðu við Esjón Geber.
50Þá sagði Ahasía Akabsson við Jósafat: „Mínir menn geta farið með þínum mönnum á skipunum.“ Því hafnaði Jósafat.
51Jósafat var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs, forföður síns. Jóram, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Ahasía Ísraelskonungur52Ahasía Akabsson varð konungur yfir Ísrael á sautjánda stjórnarári Jósafats Júdakonungs. Hann ríkti tvö ár yfir Ísrael.
53Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann breytti eins og faðir hans og móðir og Jeróbóam Nebatsson sem hafði komið Ísrael til að syndga.
54Hann dýrkaði Baal og tilbað hann og vakti með því reiði Drottins, Guðs Ísraels, alveg eins og faðir hans hafði gert.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.