Jeremía 28 - Biblían (2007)

Jeremía og Hananja

1Þetta sama ár ávarpaði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon mig í húsi Drottins. Það var við upphaf stjórnar Sedekía Júdakonungs, á fjórða árinu, í fimmta mánuðinum, að hann talaði við mig frammi fyrir prestunum og öllu fólkinu og sagði:

2„Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég brýt ok konungsins í Babýlon.

3Innan tveggja ára mun ég senda aftur til þessa staðar öll þau ker úr húsi Drottins sem Nebúkadnesar konungur í Babýlon tók með sér héðan og flutti til Babýlonar.

4Ég mun einnig flytja Jekonja Jójakímsson Júdakonung og alla útlagana frá Júda aftur til þessa staðar, segir Drottinn, því að ég mun brjóta ok konungsins í Babýlon.“

5Jeremía spámaður svaraði Hananja spámanni frammi fyrir prestunum og öllu fólkinu sem var í húsi Drottins.

6Jeremía spámaður sagði: „Já, vonandi gerir Drottinn þetta. Vonandi lætur Drottinn forspá þína rætast og flytur kerin úr húsi Drottins ásamt öllu fólkinu aftur hingað frá Babýlon.

7En hlustaðu nú á það sem ég flyt þér og öllu fólkinu:

8Fyrri tíðar spámenn, sem uppi voru á undan mér og þér, fluttu mörgum löndum og voldugum ríkjum boðskap um stríð, böl og drepsótt.

9Hvort spámaður, sem boðar heill, er í raun sendur af Drottni sannast af því að orð hans rætast.“

10Þá tók Hananja okið af hálsi Jeremía spámanni og braut það.

11Því næst sagði Hananja spámaður frammi fyrir prestunum og öllu fólkinu: „Svo segir Drottinn: Áður en tvö ár eru liðin mun ég á sama hátt brjóta ok Nebúkadnesars konungs í Babýlon af hálsi allra þjóða.“ En Jeremía spámaður gekk leiðar sinnar.

12Eftir að Hananja spámaður hafði brotið okið af hálsi Jeremía spámanni kom orð Drottins til Jeremía spámanns:

13Far þú og segðu við Hananja: Svo segir Drottinn: Þú braust ok úr tré, í stað þess skaltu gera ok úr járni.

14Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég legg ok úr járni á háls allra þessara þjóða svo að þær þjóni Nebúkadnesari konungi í Babýlon. Þær skulu þjóna honum og ég fæ honum jafnvel dýr merkurinnar.

15Jeremía spámaður sagði við Hananja spámann: „Hlustaðu nú, Hananja. Drottinn hefur ekki sent þig. Þú hefur blekkt þetta fólk til að reiða sig á lygar.

16Þess vegna segir Drottinn: Ég sendi þig í burt af yfirborði jarðar. Þú deyrð á þessu ári því að þú hefur hvatt til fráhvarfs frá Drottni.“

17Hananja spámaður dó þetta ár í sjöunda mánuðinum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help