Amos 3 - Biblían (2007)

Útvalning og ábyrgð

1Heyrið þetta orð sem Drottinn talaði gegn yður, Ísraelsmenn, og gegn öllum þeim kynstofni sem ég leiddi út af Egyptalandi:

2Af öllum kynstofnum jarðar hef ég aðeins valið yður. Þess vegna kalla ég yður til ábyrgðar fyrir öll afbrot yðar.

3Verða tveir menn samferða

nema þeir hafi áður mælt sér mót?

4Öskrar ljón í skóginum

hafi það enga bráð?

Grenjar ljónshvolpur í bæli sínu

nema hann hafi engu náð?

5Fellur fugl til jarðar

hafi enginn hæft hann?

Hrekkur gildra í lás á jörðinni

nema eitthvað hafi í hana komið?

6Verður hafurshornið þeytt í einhverri borg

án þess að íbúarnir óttist?

Kemur böl yfir borg

hafi Drottinn ekki komið því til leiðar?

7Því að Drottinn Guð gerir ekkert

án þess að opinbera fyrirætlun sína fyrir þjónum sínum, spámönnunum.

8Ljónið öskrar − hver óttast ekki?

Drottinn Guð talar − hver spáir ekki?

Dómur yfir Samaríu

9Kallið út yfir hallirnar í Asdód

og hallirnar í Egyptalandi

og segið: Safnist saman á fjöllunum við Samaríu

og sjáið sundrungina í borginni

og ofbeldið sem þar er framið.

10Íbúarnir kunna ekki að gera það sem rétt er,

hefur Drottinn sagt.

Þeir safna auði í hallir sínar með ofbeldi og yfirgangi.

11Þess vegna segir Drottinn Guð:

Fjandmenn munu umkringja landið,

þeir munu brjóta niður varnir þínar

og hallir þínar verða rændar.

12Svo segir Drottinn:

Líkt og þegar hirðir bjargar tveimur leggjum

eða snepli af eyra úr gini ljónsins

munu Ísraelsmenn sem búa í Samaríu bjargast,

aðeins með fótagafl af rúmi og höfðagafl af bekk.

13Hlustið og vitnið um þetta gegn ætt Jakobs,

segir Drottinn Guð hersveitanna:

14Já, daginn sem ég kalla Ísraelsmenn til ábyrgðar fyrir glæpi sína

mun ég senda hegninguna yfir ölturu í Betel.

Altarishornin verða höggvin af,

þau munu falla til jarðar.

15Þá brýt ég niður vetrarhúsið og sumarhúsið,

fílabeinshúsin verða jöfnuð við jörðu

og hin stóru hús munu hverfa,

segir Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help