1Móse skýrði Ísraelsmönnum frá þessu eins og Drottinn hafði boðið.
2Móse talaði til leiðtoga ættbálka Ísraels og sagði: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið:
3Nú vinnur maður Drottni heit eða skuldbindur sig með eiði að neita sér um eitthvað og skal hann ekki hvika frá loforði sínu, hann skal í einu og öllu standa við það sem hann sagði.
4Vinni ung kona, sem er ógefin í föðurhúsum, Drottni heit eða skuldbindi sig með eiði að neita sér um eitthvað
5og faðir hennar heyrir um heit hennar eða skuldbindingu og segir ekkert við hana, skulu öll heit hennar og allar skuldbindingar standa.
6En komi faðir hennar með mótbárur gegn henni daginn sem hann heyrir um einhver heit hennar eða skuldbindingar standa þau ekki. Drottinn mun fyrirgefa henni því að faðir hennar kom með mótbárur gegn henni.
7En verði hún gefin manni og heit hennar hvíla á henni eða hún hefur skuldbundið sig með gálausu tali
8og maður hennar heyrir um það en segir ekkert við hana daginn, sem hann heyrir það, skulu heit hennar og skuldbindingar standa.
9En komi maður hennar með mótbárur gegn henni daginn sem hann heyrir um þetta og hann rýfur heitið, sem hvílir á henni eða ómerkir gálausar skuldbindingar hennar, mun Drottinn fyrirgefa henni.
10Heit ekkju eða fráskilinnar konu stendur, sem og allt annað sem hún hefur skuldbundið sjálfa sig með.
11Hafi hún unnið heit í húsi manns síns eða skuldbundið sjálfa sig með eiði heima hjá manni sínum
12og maður hennar heyrir um það en segir ekkert við hana eða kemur ekki með neinar mótbárur, skulu öll heit hennar og standa.
13En ef hann rýfur þau daginn sem hann heyrir um þau stendur ekkert sem hún hefur sagt um heit sín eða skuldbindingu sjálfrar sín. Maður hennar hefur rofið þau og Drottinn mun fyrirgefa henni.
14Maður hennar getur samþykkt eða rofið sérhvert heit hennar og sérhverja skuldbindingu.
15Þegi maður hennar um þau dag eftir dag samþykkir hann öll heit hennar og skuldbindingar sem á henni hvíla. Hann hefur samþykkt þær því að hann þagði frá þeim degi er hann heyrði um þær.
16Ef hann rýfur þær eftir að hafa heyrt um þær skal hann taka á sig sekt hennar.“
17Þetta eru lagaákvæði sem Drottinn lagði fyrir Móse um samband eiginmanns og eiginkonu og milli föður og ógefinnar dóttur í föðurgarði.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.