1Er Astýages konungur safnaðist til feðra sinna tók Persinn Kýrus við ríki hans.
2Daníel var mjög handgenginn konungi og í meiri metum en aðrir vinir hans.
3Babýloníumenn áttu sér skurðgoð sem þeir nefndu Bel. Þeir færðu því dag hvern tólf sekki af hveitimjöli, fjörutíu sauði og sex mæla víns.
4Konungurinn tilbað goðið og fór daglega til að tigna það. Daníel féll hins vegar fram fyrir sínum Guði. Konungur spurði hann: „Hvers vegna fellur þú ekki fram fyrir Bel?“
5„Ég tilbið ekki skurðgoð af höndum gerð,“ svaraði hann, „heldur hinn lifandi Guð sem skapaði himin og jörð og ríkir yfir öllu sem lifir.“
6Þá spurði konungur: „Virðist þér Bel ekki vera lifandi Guð? Sérðu ekki hvað hann etur og drekkur mikið dag hvern?“
7Daníel hló við og svaraði: „Láttu ekki blekkjast, konungur. Að innan er hann leir og að utan eir og hvorki hefur hann nokkru sinni etið neitt né heldur drukkið.“
8Konungur reiddist og kallaði presta Bels fyrir sig og sagði við þá: „Ef þið segið mér ekki hverjir eta upp allan þennan mat þá skuluð þið týna lífinu.
9En ef þið getið sannað að Bel hafi neytt hans þá skal Daníel láta lífið því að hann hefur lastmælt Bel.“ Daníel sagði þá við konung: „Látum svo vera.“
10Prestar Bels voru sjötíu talsins. Þeir voru kvæntir og áttu börn. Konungur hélt til hofs Bels ásamt Daníel.
11Þá sögðu Belprestarnir við þá: „Nú skulum við fara héðan en þú, konungur, skalt reiða fram matinn, blanda vínið og leggja það á borð. Lokaðu síðan dyrunum og innsiglaðu þær með innsigli þínu.
12Ef þú kemst svo að raun um að Bel hafi ekki etið allt upp til agna þegar þú kemur í fyrramálið, þá skulum við láta lífið en Daníel að öðrum kosti ef hann hefur logið á okkur.“
13Voru þeir öruggir með sig enda höfðu þeir gert undir borðinu leynigöng, sem þeir fóru jafnan um, og átu það sem þar var fram borið.
14Þegar prestarnir voru farnir út lagði konungur matinn fram fyrir Bel. Þá lét Daníel þjóna sína sækja ösku og stráði henni yfir allt gólf hofsins að konungi einum ásjáandi. Gengu þeir síðan út, lokuðu dyrunum og innsigluðu þær með innsigli konungs og fóru þaðan.
15Um nóttina komu prestarnir eins og þeir voru vanir og konur þeirra og börn og átu og drukku allt upp.
16Árla næsta morgun sneru konungur og Daníel aftur.
17„Eru innsiglin heil, Daníel?“ spurði konungur. Hann svaraði: „Já, þau eru órofin, konungur.“
18Óðar en dyrunum var lokið upp leit konungur á borðið og hrópaði hárri röddu: „Mikill ert þú, Bel! Alls engin svik verða hjá þér fundin.“
19Þá hló Daníel og tók í konung til að aftra honum að ganga inn og sagði: „Líttu á gólfið og aðgættu eftir hvern þessi spor eru.“
20Þá svaraði konungur: „Ég sé spor karla, kvenna og barna.“
21Varð konungur ævareiður og lét grípa prestana, konur þeirra og börn. Sýndu þeir honum leynidyrnar sem þeir voru vanir að koma inn um og eta það sem lagt var á borð.
22Lét konungur síðan taka þá af lífi en gaf Daníel Bel og eyðilagði hann goðið og hof þess.
Daníel drepur drekann23Í borginni var einnig dreki mikill sem Babýloníumenn tilbáðu.
24Sagði konungur við Daníel: „Ekki ætlar þú þó að halda því fram að þetta sé ekki lifandi guð? Þú skalt falla fram fyrir honum!“
25En Daníel svaraði: „Ég mun tilbiðja Drottin, Guð minn því að hann er lifandi Guð.
26En ef þú, konungur, gefur mér leyfi þá skal ég drepa drekann án þess að hafa sverð eða staf.“ „Það er þér heimilt,“ svaraði konungur.
27Þá tók Daníel tjöru, tólg og hár sem hann sauð hvað með öðru og gerði kökur af. Stakk hann þeim í gin drekans sem át þær og sprakk. „Sjáið nú hvað það er sem þið tilbiðjið,“ sagði Daníel.
28Þegar Babýloníumenn fréttu þetta varð þeim mjög heitt í hamsi. Hófu þeir samblástur gegn konungi og sögðu: „Konungurinn er orðinn Gyðingur. Hann hefur eyðilagt Bel, drepið drekann og höggvið prestana.“
29Fóru þeir til konungs og sögðu við hann: „Framseldu okkur Daníel. Að öðrum kosti drepum við þig og fjölskyldu þína.“
30Konungur fann að hart var að honum lagt og neyddist hann til að afhenda þeim Daníel.
31Þeir vörpuðu honum í ljónagryfju og var hann þar í sex daga.
32Í gryfjunni voru sjö ljón. Var vaninn að færa þeim tvo menn og tvo sauði dag hvern. En nú var þeim ekkert gefið til að þau ætu Daníel.
Daníel bjargað úr ljónagryfjunni33Þá var spámaðurinn Habakkuk á dögum í Júdeu. Hafði hann soðið súpu og lagt brauðmola í og var á leið út á akur með skálina til að færa kornskurðarmönnum.
34Þá sagði engill Drottins við Habakkuk: „Taktu þennan mat sem þú ert með og færðu hann Daníel sem er í ljónagryfjunni í Babýlon.“
35En Habakkuk svaraði: „Herra! Ég hef aldrei séð Babýlon og veit ekkert um gryfjuna.“
36Þá greip engill Drottins í hvirfil hans, hóf hann upp á hárinu og þaut með hann á einu andartaki til Babýlonar og setti hann niður við gryfjuna.
37Þá hrópaði Habakkuk: „Daníel, Daníel, taktu matinn sem Guð hefur sent þér!“
38En Daníel sagði: „Þú hefur minnst mín, ó Guð, og ekki yfirgefið þá sem elska þig.“
39Stóð hann síðan upp og mataðist en engill Guðs flutti Habakkuk samstundis aftur til síns heima.
40Sjöunda daginn kom konungur til að harma Daníel. Er hann kom að gryfjunni og leit ofan í hana þá sat Daníel þar.
41Konungur hrópaði þá hástöfum: „Mikill ert þú, Drottinn, Guð Daníels. Enginn Guð er annar en þú!“
42Dró hann síðan Daníel upp en varpaði þeim sem höfðu ætlað að tortíma honum ofan í gryfjuna. Voru þeir samstundis etnir upp til agna að konungi ásjáandi.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.