1Nokkru síðar héldu Móabítar og Ammónítar og ásamt þeim hópur Meúníta gegn Jósafat til að ráðast á hann.
2Þá komu sendimenn og sögðu: „Mikill her er á leiðinni gegn þér handan yfir vatnið frá Edóm. Nú er hann kominn til Haseson Tamar, það er Engedí.“
3Jósafat varð skelfingu lostinn og ákvað að leita svara hjá Drottni. Hann gaf fyrirmæli um föstu í öllu Júda.
4Og Júdamenn söfnuðust saman til þess að leita úrskurðar Drottins. Þeir komu frá öllum borgum í Júda til þess að leita úrskurðar Drottins.
5Jósafat gekk fram fyrir söfnuð Júdamanna og Jerúsalembúa í húsi Drottins og blasti þá nýi forgarðurinn við honum.
6Hann bað: „Drottinn, Guð feðra vorra. Ert þú ekki Guð á himnum og ríkir þú ekki yfir öllum konungsríkjum þjóðanna? Máttur og megin eru í hendi þinni og enginn getur veitt þér viðnám.
7Sviptir þú, Guð vor, ekki fyrri íbúa þessa lands landi sínu vegna lýðs þíns, Ísraels? Gafstu það ekki niðjum Abrahams, vinar þíns, til ævinlegrar eignar?
8Þeir settust þar að, reistu nafni þínu helgidóm og sögðu:
9Ef böl kemur yfir oss, sverð, flóð, drepsótt eða hungursneyð, munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir auglit þitt því að nafn þitt býr í þessu húsi. Vér munum hrópa til þín í neyð vorri og þú munt bænheyra og hjálpa oss.
10Nú eru Ammónítar, Móabítar og íbúar Seírfjalla komnir hingað. Þú leyfðir Ísraelsmönnum ekki að fara inn í land þeirra þegar þeir komu frá Egyptalandi heldur sneiddu þeir hjá þeim og eyddu þeim ekki.
11En nú launa þeir fyrir sig með því að koma hingað til þess að hrekja oss af eign þinni sem þú hefur gefið oss.
12Munt þú, Guð, ekki dæma þá? Vér erum aflvana gegn þessum volduga her sem heldur gegn oss. Vér vitum ekki hvað vér getum gert, þess vegna beinum vér sjónum vorum til þín.“
13Þegar allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni ásamt ungbörnum sínum, konum og sonum,
14kom andi Drottins yfir Jehasíel mitt í söfnuðinum. Hann var sonur Sakaría Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar og var Levíti af ætt Asafs.
15Hann sagði: „Takið eftir, allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú, Jósafat konungur. Svo segir Drottinn við ykkur: Óttist ekki. Skelfist ekki þennan mikla her því að það er ekki ykkar að berjast heldur Guðs.
16Farið á morgun á móti þeim. Þeir munu koma upp stíginn við Sís og þið munuð mæta þeim í dalsmynninu sem snýr að Jerúeleyðimörk.
17En þið eigið ekki að berjast. Fylkið ykkur, standið og horfið á þegar Drottinn vinnur sigur fyrir ykkur, Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist ekki. Skelfist ekki. Farið á móti þeim á morgun, Drottinn verður með ykkur.“
18Jósafat laut þá til jarðar fram á ásjónu sína og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottni og veittu honum lotningu.
19Því næst risu Levítar af Kahatítaætt og Kóraætt á fætur og lofuðu Drottin, Guð Ísraels, hárri og sterkri röddu.
20Snemma næsta morgun héldu þeir inn í Tekóaeyðimörk. Þegar þeir lögðu af stað gekk Jósafat fram og sagði: „Hlýðið á mig, Júdamenn og Jerúsalembúar. Treystið Drottni, Guði ykkar, og þið munuð fá staðist. Treystið spámönnum hans og ykkur mun farnast vel.“
21Hann ráðgaðist við herinn og fylkti söngvurum Drottins. Þeir gengu síðan á undan hernum, búnir helgum skrúða, lofuðu Drottin og hrópuðu:
Lofið Drottin því að
miskunn hans varir að eilífu.
22Um leið og þeir lustu upp herópi og hófu lofsönginn lét Drottinn menn ráðast úr launsátri gegn Ammónítum, Móabítum og fjallabúum frá Seír, sem höfðu haldið gegn Júda, og biðu þeir ósigur.
23En Ammónítar og Móabítar fylktu sér gegn mönnunum frá Seír, helguðu þá banni og tortímdu þeim. Þegar þeir höfðu gereytt mönnunum frá Seír réðust þeir hver gegn öðrum og tortímdu hver öðrum.
24Þegar Júdamenn komu þangað sem sjá mátti yfir eyðimörkina og lituðust um eftir hinum mikla her lágu aðeins lík hinna föllnu á jörðinni. Enginn hafði komist undan.
25Því næst kom Jósafat ásamt her sínum til þess að taka herfangið. Þeir fundu mikinn fénað, vörur, klæðnaði og dýrgripi. Þeir tóku svo mikið að þeir gátu ekki borið það. Herfangið var svo mikið að þeir voru þrjá daga að safna því.
26Á fjórða degi söfnuðust þeir saman í Lofgjörðardal. Þessi staður er nefndur Lofgjörðardalur enn í dag því að þar lofuðu þeir Drottin.
27Því næst sneru allir mennirnir frá Jerúsalem og Júda, með Jósafat í broddi fylkingar, heim á leið til Jerúsalem, glaðir í bragði, því að Drottinn hafði glatt þá með sigrinum yfir fjandmönnum þeirra.
28Þegar þeir komu til Jerúsalem og húss Drottins léku þeir á hörpur, gígjur og lúðra.
29Guð hafði látið skelfingu koma yfir öll önnur konungsríki þegar fréttist að Drottinn hefði barist gegn fjandmönnum Ísraels.
30Og friður ríkti því í ríki Jósafats og Guð hans veitti honum frið allt um kring.
Ríkisstjórn Jósafats31Jósafat ríkti yfir Júda. Hann var þrjátíu og fimm ára þegar hann varð konungur og hann ríkti tuttugu og fimm ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir.
32Hann fetaði í fótspor Asa, föður síns, og vék ekki frá þeim. Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins.
33Þó hurfu fórnarhæðirnar ekki og enn beindi þjóðin ekki huga sínum til Guðs feðra sinna.
34Það sem ósagt er af sögu Jósafats, frá upphafi til enda, er skráð í sögu Jehú Hananísonar sem hefur verið tekin upp í bók Ísraelskonunga.
35Eftir þetta gerði Jósafat Júdakonungur bandalag við Ahasía Ísraelskonung enda þótt hann breytti óguðlega.
36Þeir Jósafat gerðu samning um að smíða skip sem áttu að sigla til Tarsis. Þeir létu smíða skipin í Esjon Geber.
37En Elíeser, sonur Dódava frá Maresa, kom fram sem spámaður gegn Jósafat og sagði: „Drottinn mun brjóta það sem þú hefur látið smíða af því að þú hefur gert bandalag við Ahasía.“ Skipin brotnuðu í spón og komust aldrei til Tarsis.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.