Hósea 2 - Biblían (2007)

Fyrirheit um náð Guðs

1Fjöldi Ísraelsmanna verður sem sandkorn á sjávarströnd

sem hvorki verða mæld né talin.

Í stað þess að sagt er við þá: „Þér eruð ekki þjóð mín,“

verða þeir nefndir „Synir hins lifandi Guðs“.

2Júdamenn og Ísraelsmenn munu sameinast

og taka sér einn leiðtoga

og snúa heim frá landinu

því að mikill er dagur Jesreel.

3Segið við bræður yðar: „Þér eruð lýður minn“

og við systur yðar: „Yður er miskunnað“.

Ótrú eiginkona, ótryggð Ísraels

4Kærið móður yðar, kærið,

því að hún er ekki eiginkona mín

og ég ekki eiginmaður hennar.

Hún skal fjarlægja skækjumerkið af andliti sínu

og hórumerkið milli brjósta sinna.

5Annars fletti ég hana klæðum og skil hana eftir nakta

eins og daginn sem hún fæddist,

ég læt hana verða eins og eyðimörk,

geri hana eins og skrælnað land

og læt hana deyja úr þorsta.

6Börnum hennar sýni ég enga miskunn

því að þau eru hórbörn.

7Já, móðir þeirra drýgði hór,

hún, sem bar þau undir belti, varð sér til skammar

því að hún sagði:

„Ég elti ástmenn mína,

þeir gefa mér brauð mitt og vatn,

ull mína og hör,

olíu og vín.“

8Þess vegna loka ég vegi þínum með þyrnigerði

og hleð fyrir með steinvegg,

svo að þú finnir ekki stigu þína.

9Hún mun elta ástmenn sína

en ekki ná þeim,

hún mun leita þeirra

en ekki finna þá.

Þá mun hún segja:

„Nú fer ég og sný aftur til fyrsta eiginmanns míns

því að þá leið mér betur en núna.“

10En hún skilur ekki að það var ég

sem gaf henni korn, vín og olíu

og jós yfir hana silfri

og gulli sem notað var í Baalsmyndir.

11Þess vegna tek ég korn mitt aftur þegar tími þess kemur

og vín mitt þegar tími þess kemur,

ull mína og hör

sem hún hafði til að skýla nekt sinni.

12Nú bera ég blygðun hennar

í augsýn ástmanna hennar

og enginn þeirra mun bjarga henni úr greipum mínum.

13Ég mun binda enda á alla gleði hennar,

hátíðir, tunglkomudaga og hvíldardaga

og allar hátíðarsamkomur hennar

14og eyða vínvið hennar og fíkjutré

sem hún sagði um:

„Þau eru skækjulaun mín

sem ástmenn mínir greiddu mér.“

Ég geri garða hennar að kjarri

sem villt dýr munu éta.

15Ég dreg hana til ábyrgðar fyrir hátíðisdaga Baala,

þegar hún færði þeim reykelsisfórnir

og skreytti sig með nefhring og hálsfesti

og elti ástmenn sína

en gleymdi mér, segir Drottinn.

16Þess vegna lokka ég hana nú sjálfur

og fer með hana út í eyðimörkina

og hughreysti hana.

17Þá gef ég henni víngarða hennar aftur

og geri Mæðudal að Vonarhliði.

Þá mun hún svara mér eins og á æskudögum sínum,

daginn sem hún hélt upp frá Egyptalandi.

Nýr sáttmáli

18Á þeim degi munt þú, segir Drottinn,

ávarpa mig „eiginmaður minn“,

og ekki framar kalla til mín „Baal minn“.

19Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni hennar

og þeir verða ekki nefndir á nafn framar.

20Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn

við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar

og eyði boga, sverði og stríði úr landinu

og læt þá búa óhulta.

21Ég festi þig mér um alla framtíð,

ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,

22ég festi þig mér í tryggð,

og þú munt þekkja Drottin.

23Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn,

ég mun bænheyra himininn

og hann mun bænheyra jörðina

24og jörðin mun bænheyra kornið,

vínið og olíuna,

og þau munu bænheyra Jesreel

25og mín vegna mun ég sá henni í landið.

Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn

og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“

og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help