Fjórða Mósebók 27 - Biblían (2007)

Erfðaréttur dætra

1Dætur Selofhaðs gengu nú fram. Selofhað var sonur Hefers Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af ættum Manasse, sonar Jósefs. Dætur hans hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.

2Þær gengu fram fyrir Móse og Eleasar prest, höfðingjana og allan söfnuðinn við dyr samfundatjaldsins og sögðu:

3„Faðir okkar dó í eyðimörkinni. Samt var hann ekki í söfnuðinum sem gerði samblástur gegn Drottni, í söfnuði Kóra, heldur dó hann vegna eigin syndar án þess að hafa eignast syni.

4Hvers vegna verður nafn föður okkar nú afmáð úr ætt hans af því að hann eignaðist engan son? Fáðu okkur því landareign meðal föðurbræðra okkar.“

5Móse lagði mál þeirra fyrir Drottin

6og Drottinn svaraði Móse og sagði:

7„Dætur Selofhaðs hafa á réttu að standa. Fáðu þeim landareign, erfðaland, meðal föðurbræðra sinna og láttu óðal föður þeirra ganga til þeirra.

8Þú skalt ávarpa Ísraelsmenn og segja: Þegar maður deyr án þess að eiga son skal óðal hans ganga til dóttur hans.

9Eigi hann enga dóttur skuluð þið fá bræðrum hans erfðaland hans.

10En eigi hann enga bræður skuluð þið fá föðurbræðrum hans erfðaland hans.

11Eigi hann enga föðurbræður skuluð þið fá erfðaland hans nánasta skyldmenni hans í ætt hans og skal ættinginn taka landið til eignar.

Þetta skal verða lagaákvæði í Ísrael eins og Drottinn hefur boðið Móse.“

Jósúa, eftirmaður Móse

12Drottinn sagði við Móse:

„Farðu hér upp á Abarímfjall og horfðu yfir landið sem ég hef gefið Ísraelsmönnum.

13Þegar þú hefur horft yfir það muntu safnast til feðra þinna eins og Aron, bróðir þinn,

14því að þið risuð gegn boði mínu í Síneyðimörk þegar söfnuðurinn gerði uppreisn og þið áttuð að birta heilagleika minn með vatninu fyrir augum þeirra.“ Það var Meríbavatn við Kades í Síneyðimörk.

15En Móse ávarpaði Drottin og sagði:

16„Drottinn Guð, sem gæðir allt hold lífi, ætti að skipa mann yfir söfnuðinn,

17mann sem fer fyrir þeim út og inn aftur, leiðir þá heiman og heim svo að söfnuður Drottins verði ekki eins og hjörð án hirðis.“

18Drottinn sagði við Móse:

„Sæktu Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og leggðu hönd þína yfir hann.

19Leiddu hann síðan fram fyrir Eleasar prest og allan söfnuðinn og gefðu honum fyrirmæli.

20Veittu honum nokkuð af valdi þínu svo að allur söfnuður Ísraels hlýði honum.

21Hann skal ganga fyrir Eleasar prest og biðja hann um úrskurði með úrím fyrir augliti Drottins.“

22Móse gerði það sem Drottinn hafði boðið honum. Hann sótti Jósúa og leiddi hann fram fyrir Eleasar prest og allan söfnuðinn,

23lagði hönd sína yfir hann og gaf honum fyrirmæli eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help