Önnur Mósebók 15 - Biblían (2007)

Sigursöngur Ísraels

1Þá sungu Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan söng:

Ég vil lofsyngja Drottni

því að hann er hátt upphafinn.

Hestum og riddurum

steypti hann í hafið.

2Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann kom mér til hjálpar.

Hann er Guð minn, ég vil vegsama hann,

Guð föður míns, ég vil hylla hann.

3Drottinn er stríðshetja,

Drottinn er nafn hans.

4Vögnum faraós og hestum

steypti hann í hafið,

úrvalsvagnliði hans

drekkti hann í Sefhafinu.

5Djúpin huldu þá,

eins og steinn sukku þeir í hafdjúpið.

6Hægri hönd þín, Drottinn,

hefur gert sig dýrlega með afli,

hægri hönd þín, Drottinn,

kremur fjandmenn.

7Með mikilli hátign þinni

leggur þú andstæðinga þína að velli,

þú sleppir heift þinni lausri,

hún gleypir þá sem hálm.

8Fyrir blæstri nasa þinna

hlóðst vatnið upp,

boðarnir stóðu sem veggir,

öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.

9Óvinurinn sagði:

„Ég ætla að sækja fram, ná til þeirra,

skipta herfangi,

seðja með þeim hungur mitt,

draga sverð úr slíðrum,

hönd mín skal eyða þeim.“

10Þú blést með anda þínum,

hafið luktist yfir þeim,

þeir sukku sem blý

í hið mikla haf.

11Hver meðal guðanna

er sem þú, Drottinn?

Hver er sem þú,

máttugur og heilagur,

ógnvekjandi í dýrð þinni,

þú sem vinnur máttarverk?

12Þú réttir út hægri hönd,

jörðin gleypti þá.

13Þú leiðbeindir af gæsku

þjóðinni sem þú frelsaðir,

leiddir hana með mætti þínum

til heilags bústaðar þíns.

14Þjóðirnar heyrðu um þetta, þær titruðu,

skjálfti greip íbúa Filisteu,

15höfðingjar Edóms skelfdust

ótti greip leiðtoga Móabs,

allir íbúar Kanaans misstu kjarkinn,

16skelfing greip þá og ótti,

frammi fyrir mætti arms þíns

urðu þeir hljóðir sem steinn

þegar þjóð þín, Drottinn, fór leiðar sinnar,

þegar þjóðin, sem þú eignaðist, fór leiðar sinnar.

17Þú leiddir þá heim,

gróðursettir þá

á fjallinu sem er eign þín,

á staðnum sem þú gerðir að bústað þínum,

í helgidóminum, Drottinn, sem hendur þínar lögðu grunn að.

18Drottinn er konungur um aldur og ævi.

19Þegar hestar faraós ásamt hervögnum hans og riddurum héldu út í hafið lét Drottinn vatnið í hafinu falla yfir þá en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið.

Lofsöngur Mirjamar

20Þá tók spákonan Mirjam, systir Arons, trumbu sér í hönd og allar aðrar konur héldu á eftir henni með trumbuslætti og dansi. Mirjam söng fyrir þeim:

21Lofsyngið Drottni

því að hann er hátt upp hafinn,

hestum og riddurum

steypti hann í hafið.

Eyðimerkurganga Ísraels

22Móse lét nú Ísrael leggja af stað frá Sefhafinu. Þeir héldu út í Súreyðimörkina og gengu í þrjá daga um hana án þess að finna vatn.

23Þegar þeir komu til Mara gátu þeir ekki drukkið vatnið þar því að það var rammt. Þess vegna nefnist staðurinn Mara.

24Þá möglaði fólkið gegn Móse og spurði: „Hvað eigum við að drekka?“

25Hann hrópaði á hjálp til Drottins og Drottinn sýndi honum tré. Móse kastaði því í vatnið og þá varð það ferskt. Þar setti hann þjóðinni lög og reglur og reyndi hana.

26Hann sagði: „Ef þú hlýðir á rödd Drottins, Guðs þíns, og breytir eftir því sem rétt er í augum hans, hlýðir á fyrirmæli hans og heldur öll lög hans mun ég ekki leggja á þig neina þá sjúkdóma sem ég lagði á Egypta því að ég er Drottinn, græðari þinn.“

27Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf uppsprettur og sjötíu pálmar. Þeir tjölduðu þar við vatnið.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help