Jesaja 6 - Biblían (2007)

Köllun spámannsins

1Á dánarári Ússía konungs sá ég Drottin sitja í háu og gnæfandi hásæti og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

2Serafar stóðu fyrir ofan hann. Hafði hver þeirra sex vængi: með tveimur huldu þeir ásjónu sína, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.

3Þeir kölluðu hver til annars og sögðu:

„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar,

öll jörðin er full af hans dýrð.“

4Við raust þeirra nötruðu undirstöður þröskuldanna og húsið fylltist af reyk.

5Þá sagði ég:

„Vei mér, það er úti um mig

því að ég er maður með óhreinar varir

og bý meðal fólks með óhreinar varir

en samt hafa augu mín séð konunginn, Drottin allsherjar.“

6Þá flaug einn serafanna til mín. Hann hélt á glóandi koli sem hann hafði tekið af altarinu með töng.

7Hann snerti munn minn með kolinu og sagði:

„Þetta hefur snortið varir þínar,

sekt þín er frá þér tekin

og friðþægt er fyrir synd þína.“

8Þá heyrði ég rödd Drottins sem spurði:

„Hvern skal ég senda?

Hver vill reka erindi vort?“

Ég svaraði: „Hér er ég. Send þú mig.“

9Hann sagði: „Far þú og seg þessu fólki:

Hlustið og hlustið en skiljið ekki.

Horfið og horfið en skynjið ekki.

10Sljóvga hjarta þessa fólks,

deyf eyru þess

og loka augum þess

svo að það sjái ekki með augunum,

heyri ekki með eyrunum

og skilji ekki með hjartanu,

svo að það snúi ekki við og læknist.“

11Þá spurði ég: „Hversu lengi, Drottinn?“

Hann svaraði: „Þar til borgirnar verða eyddar

og enginn býr í þeim

og þar til húsin verða mannlaus

og akurlendið eyðimörk,

12þar til Drottinn hrekur fólkið langt í burt

og eyðingin verður mikil í landinu.

13Og þótt enn sé tíundi hluti eftir

skal honum eytt

eins og rótarstúfur er eftir

þegar eik eða terebintutré hefur verið fellt.

Þannig verður stúfurinn heilagt sæði.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help