1Þá safnaði Salómon til sín í Jerúsalem öllum öldungum Ísraels, öllum höfðingjum ættbálka og ætta Ísraels, til þess að flytja sáttmálsörk Drottins frá borg Davíðs, það er frá Síon.
2Allir Ísraelsmenn komu saman hjá Salómon konungi á hátíðinni í etanímmánuði, í sjöunda mánuðinum.
3Allir öldungar Ísraels komu og prestarnir tóku örkina
4og fluttu upp eftir ásamt tjaldbúðinni og öllum hinum helgu áhöldum sem voru í tjaldinu. Prestarnir og Levítarnir sáu um flutninginn.
5Salómon konungur og allur Ísraels söfnuður, sem hjá honum var, stóð frammi fyrir örkinni. Færðu þeir sauði og naut að sláturfórn, slíkan fjölda að hvorki varð talinn né tölu á komið.
6Því næst fluttu prestarnir sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innsta herbergi hússins, í hið allra helgasta, undir vængi kerúbanna
7því að þeir breiddu út vængina yfir staðnum þar sem örkin stóð. Kerúbarnir huldu örkina og burðarstengur hennar ofan frá.
8Burðarstengurnar voru svo langar að enda þeirra mátti sjá frá helgidóminum framan við innsta herbergið en þær sáust ekki þar fyrir framan. Þær hafa verið þar allt fram á þennan dag.
9Ekkert var í örkinni annað en steintöflurnar tvær sem Móse hafði sett í hana við Hóreb þegar Drottinn gerði sáttmála við Ísraelsmenn eftir brottför þeirra frá Egyptalandi.
10En svo bar við þegar prestarnir gengu út úr helgidóminum að ský fyllti musteri Drottins.
11Gátu prestarnir ekki gegnt þjónustu sinni fyrir skýinu því að dýrð Drottins fyllti musteri Drottins.
12Þá sagði Salómon:
Drottinn hefur sagt
að hann vilji búa í myrkri.
Nú hef ég byggt þér veglegt hús,
13eilífan bústað.
MusterisvígslanSalómon ávarpar söfnuðinn14Þá sneri konungur sér við og blessaði allan söfnuð Ísraels en allur söfnuður Ísraels stóð.
15Hann sagði: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels. Hann hefur efnt með hendi sinni það sem hann hét Davíð, föður mínum, með munni sínum þegar hann sagði:
16Frá þeim degi, er ég leiddi lýð minn, Ísrael, út úr Egyptalandi, hef ég ekki valið borg nokkurs af ættbálkum Ísraels til þess að reisa hús þar sem nafn mitt gæti búið. Aftur á móti valdi ég Davíð til þess að ríkja yfir þjóð minni, Ísrael.
17Davíð, faðir minn, hafði í hyggju að reisa nafni Drottins, Guðs Ísraels, hús.
18En Drottinn sagði við Davíð, föður minn: Vel gerðir þú er þú ákvaðst að reisa nafni mínu hús
19en þú átt ekki að byggja þetta hús heldur skal sonur þinn, sem er af þínu holdi, reisa nafni mínu hús.
20Drottinn hefur efnt það loforð sem hann gaf. Ég er kominn í stað Davíðs, föður míns, og er sestur í hásæti Ísraels eins og Drottinn hét. Nú hef ég reist nafni Drottins, Guðs Ísraels, hús
21og búið örkinni þar stað. Í henni er sáttmálinn sem Drottinn gerði við feður okkar þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi.“
Vígslubæn konungs22Þessu næst gekk Salómon fyrir altari Drottins andspænis öllum söfnuði Ísraels, lauk upp lófum til himins
23og bað: „Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú, hvorki á himni né á jörðu. Þú heldur sáttmálann og sýnir þeim þjónum þínum trúfesti sem breyta af heilum hug frammi fyrir augliti þínu.
24Þú hefur staðið við það sem þú lofaðir þjóni þínum, Davíð föður mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú efnt í dag með hendi þinni.
25Drottinn, Guð Ísraels, efndu nú einnig fyrirheitið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum, þegar þú sagðir: Niðjar þínir munu ætíð sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem þeir vanda framferði sitt og breyta frammi fyrir mér eins og þú hefur gert.
26Guð Ísraels, stattu nú við fyrirheitið sem þú gafst Davíð, þjóni þínum.
27Býr Guð þá í raun og veru á jörðinni? Nei, jafnvel himinninn og himnar himnanna rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef byggt.
28Gefðu gaum að ákalli þjóns þíns og bæn hans, Drottinn Guð. Heyr ákallið og bænina sem ég, þjónn þinn, ber fram fyrir þig í dag.
29Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. Heyr bænina er þjónn þinn biður á þessum stað.
30Er þjónn þinn og lýður þinn, Ísrael, biður og snýr í átt til þessa staðar, heyr ákall hans. Hlustaðu á það í himninum þar sem þú býrð. Heyr það og fyrirgef.
31Ef einhver, sem brýtur gegn náunga sínum, er krafinn eiðs og látinn sverja, kemur og vinnur eiðinn frammi fyrir altari þínu í þessu húsi,
32heyr þá í himninum og veit honum það sem hann verðskuldar svo að þjónar þínir nái rétti sínum. Sakfelldu hinn seka svo að verk hans komi honum sjálfum í koll. Sýkna hinn saklausa og lát hann njóta réttlætis síns.
33Ef lýður þinn, Ísrael, bíður ósigur fyrir fjandmanni af því að hann hefur brotið gegn þér, og snýr sér síðan aftur til þín, lofar nafn þitt, ákallar þig og biður til þín í þessu húsi,
34heyr þá í himninum. Fyrirgef þá lýð þínum, Ísrael, synd hans og leið hann aftur til þess lands sem þú gafst feðrum hans.
35Þegar himinninn er byrgður og ekki rignir af því að Ísraelsmenn hafa syndgað gegn þér og þeir biðja og snúa í átt til þessa staðar og lofa nafn þitt og hverfa jafnframt frá syndum sínum af því að þú hefur auðmýkt þá,
36heyr þá í himninum. Fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns, Ísraels, því að þú hefur vísað honum hinn góða veg sem hann á að ganga. Lát rigna á land þitt sem þú hefur fengið lýð þínum að erfðahlut.
37Þegar hungursneyð verður í landinu, þegar drepsótt kemur, korndrep og kornbruni, þegar engisprettur og annar jarðvargur herjar á landið, þegar fjandmenn þrengja að fólkinu í landinu utan þess eigin borgarhliða, þegar plága eða sjúkdómsfaraldur þjáir það,
38heyr þá hvert ákall og hverja bæn hvers og eins af lýð þínum, Ísrael. Sérhver þeirra þekkir kvöl hjarta síns. Þess vegna ljúka þeir upp lófum sínum í átt til þessa húss.
39Heyr þá bæn þeirra í himninum þar sem þú býrð og fyrirgef þeim. Veit hverjum það sem hann verðskuldar því að þú þekkir innstu hugsanir hans, þú einn þekkir hjarta hvers manns.
40Þá munu þeir sýna þér lotningu alla daga sem þeir lifa í því landi er þú gafst feðrum vorum.
41Enn fremur þegar útlendingur, sem ekki er af lýð þínum, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna nafns þíns
42af því að frést hefur um þitt mikla nafn, sterka hönd þína og útréttan arm, þegar hann kemur og biður og snýr sér í átt til þessa húss,
43heyr þá í himninum þar sem þú býrð. Gerðu allt sem útlendingurinn biður þig um til þess að allar þjóðir jarðar játi nafn þitt. Þá munu þær sýna þér lotningu eins og lýður þinn, Ísrael, og skilja að nafn þitt hefur verið hrópað yfir þessu húsi sem ég hef byggt.
44Þegar lýður þinn heldur í stríð gegn fjandmönnum sínum og fer þá leið sem þú hefur sent hann og Ísraelsmenn biðja til Drottins og snúa sér til þessarar borgar, sem þú hefur valið þér, og hússins, sem ég hef reist nafni þínu,
45heyr þá í himninum ákall þeirra og bæn og veit þeim það sem þeir verðskulda.
46Þegar þeir syndga gegn þér, því að enginn maður er til sem ekki syndgar, og þú reiðist þeim og gefur þá á vald fjandmanna sinna sem flytja þá sem fanga til lands síns fjær eða nær,
47þá munu þeir koma aftur til sjálfra sín í landinu sem þeir voru fluttir til, iðrast og ákalla þig í landinu þar sem þeim er haldið nauðugum og segja: Vér höfum syndgað og breytt rangt og óguðlega.
48Þeir munu snúa sér aftur til þín af öllu hjarta og allri sálu í landi óvinanna, biðja til þín og horfa í átt til landsins sem þú gafst feðrum þeirra, í átt til þessarar borgar sem þú valdir þér og í átt til hússins sem ég reisti nafni þínu.
49Heyr þá í himninum, þar sem þú býrð, ákall þeirra og bæn og veit þeim það sem þeir verðskulda.
50Fyrirgef lýð þínum sem hefur syndgað gegn þér og fyrirgef öll afbrot hans gegn þér. Gef að þeir sem fluttu hann í ánauð fái samúð með honum og sýni honum miskunn.
51Því að þeir eru lýður þinn, eign þín sem þú leiddir út úr Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum.
52Gef gaum að bæn þjóns þíns og bæn lýðs þíns, Ísraels. Heyr þegar hann hrópar til þín.
53Þú, Drottinn Guð, hefur greint hann frá öllum öðrum þjóðum jarðar til þess að hann yrði þín eign eins og þú gerðir kunnugt af munni þjóns þíns, Móse, þegar þú leiddir feður vora út úr Egyptalandi.“
Blessun konungs54Þegar Salómon hafði lokið ákalli sínu og bæn til Drottins reis hann upp frá þeim stað við altari Drottins þar sem hann hafði kropið og lokið upp lófum til himins.
55Hann stóð og blessaði allan söfnuð Ísraels hárri röddu:
56„Lofaður sé Drottinn sem hefur gefið lýð sínum, Ísrael, griðastað eins og hann hafði heitið. Ekkert hinna góðu fyrirheita, sem hann lét Móse, þjón sinn, flytja, hefur brugðist.
57Drottinn Guð sé með oss eins og hann var með feðrum vorum. Hann yfirgefi oss hvorki né hafni.
58Hann snúi hjörtum vorum til sín svo að vér göngum á hans vegum með því að halda skipanir hans, fyrirmæli og lög sem hann bauð feðrum vorum að halda.
59Megi þessi orð, sem ég hef flutt sem bæn frammi fyrir augliti Drottins, Guðs vors, vera hjá honum dag og nótt svo að hann veiti þjóni sínum og lýð sínum, Ísrael, það sem hann verðskuldar dag hvern
60til þess að allar þjóðir jarðar viðurkenni að Drottinn er Guð og enginn annar.
61Fylgið Drottni, Guði vorum, af heilum hug svo að þér breytið samkvæmt fyrirmælum hans og haldið boð hans eins og nú.“
Fórnir konungs62Síðan færði konungur og allur Ísrael með honum sláturfórnir fyrir augliti Drottins.
63Salómon færði Drottni tuttugu og tvö þúsund naut og hundrað og tuttugu þúsund sauði sem heillafórn. Þannig vígði konungurinn og allir Ísraelsmenn musteri Drottins.
64Þennan sama dag helgaði konungurinn miðhluta forgarðsins sem er fyrir framan musteri Drottins. Hann fórnaði þar brennifórn, kornfórn og feiti heillafórnarinnar því að eiraltarið, sem stóð frammi fyrir augliti Drottins, var of lítið til að rúma brennifórnina, kornfórnina og feiti heillafórnarinnar.
65Í þetta skipti hélt Salómon hátíð ásamt öllum Ísrael. Var það mikill söfnuður frá héruðunum milli Lebo Hamat og Egyptalandsár. Stóð hátíðin frammi fyrir augliti Drottins, Guðs okkar, sjö daga og aðra sjö, samtals fjórtán daga.
66Á áttunda degi lét hann fólkið fara. Menn kvöddu konung og fóru til tjalda sinna, glaðir og endurnærðir, vegna allra velgjörða Drottins við Davíð, þjón sinn, og lýð sinn, Ísrael.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.