Síraksbók 26 - Biblían (2007)

1Sæll er sá maður sem á góða konu,

tala daga hans mun tvöfaldast.

2Dugandi kona gleður mann sinn

og hann nýtur friðar til æviloka.

3Góð kona er góð gjöf,

hún mun gefin þeim sem óttast Drottin.

4Hvort sem hann er ríkur eða snauður gleðst hann í hjarta,

er hýr í bragði öllum stundum.

5Þrennt hræðist hjarta mitt

og af hinu fjórða stendur mér ógn:

óhróður í borginni, múgsamkomur,

lognar ákærur, allt er það dauðanum verra.

6En afbrýði konu vekur angur og sorg,

særandi orð hennar dynja á öllum.

7Þungt ok er ill kona,

sá er vill hemja hana handleikur sporðdreka.

8Ofsa veldur ölóð kona,

hún hylur ekki hneisu sína.

9Hórkonu má þekkja á uppliti augna

og á því hvernig hún skotrar augum.

10Haf strangar gætur á óstýrilátri dóttur

svo að hún fái ei færi á að fara sínu fram.

11Gæt vel að ef hún er hortug í tilliti,

undrast eigi ef hún brýtur gegn þér.

12Eins og þyrstur ferðalangur lýkur upp munni

og teygar það vatn sem hann finnur fyrst

mun hún setjast við sérhvern tjaldhæl

og opna örvamæli sinn fyrir hverri ör.

13Þokki konu er eiginmanni yndi,

greind hennar eykur honum þrótt.

14Fámálug kona er gjöf frá Guði,

engu má jafna við sjálfsstjórn hennar.

15Hæversk kona er gædd æðsta þokka,

ekkert jafnast á við siðsama sál.

16Lík sólinni er rís á upphimni Drottins

er fegurð góðrar konu sem hlúir að heimili sínu.

17Líkt og ljómi á ljósastikunni helgu

fer frítt andlit við fagran vöxt.

18Líkir gullsúlum á silfurgrunni

eru fagrir leggir á styrkum ökklum.

[

19Barnið mitt, haltu æskublóma þínum ferskum,

gef framandi ekki styrk þinn.

20Kanna akurinn allan, leita frjósams hluta

og sáðu þar eigin sæði í trausti á ættgöfgi þinni.

21Þá munu niðjar þínir lifa og þeim vel farnast

og þeir eflast sakir trausts á góðum uppruna sínum.

22Gleðikonu má jafna við hráka

og giftri konu við aftökustað elskhuga sinna.

23Guðlaus kona verður ranglátum gefin

en guðhrædd kona hlýtur þann sem óttast Drottin.

24Óskammfeilin kona breytir stöðugt smánarlega

en siðprúð kona er jafnvel blygðunarfull frammi fyrir manni sínum.

25Þrárri konu má jafna við tík

en siðprúð kona óttast Drottin.

26Kona, sem virðir mann sinn,

þykir öllum vitur

en kona, sem vanvirðir mann sinn,

mun öllum finnast hrokafull og guðlaus.

Sæll er sá sem hlýtur góða konu

því að tala ára hans mun tvöfaldast.

27Hávær og tannhvöss kona er líkust herblæstri

og sérhver sá sem slíka á heyr stöðugan ófrið.]Dapurleg umhugsunarefni

28Tvennt er það sem hjarta mitt hryggir

og hið þriðja veldur mér reiði:

hermaður, sem líður fyrir fátækt,

greindir menn, sem gerð er hneisa,

og réttlátur maður er gengur syndinni á hönd,

Drottinn ætlar honum hegningarsverð.

29Vart mun kaupmaður komast hjá ávirðingum

né mangari hjá misgjörðum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help