Síraksbók 10 - Biblían (2007)

1Vitur leiðtogi fræðir þjóð sína,

góð skipan er þar sem hygginn ræður.

2Þjóðhöfðingja líkjast þjónar hans

og bæjarbúar borgarstjóra.

3Ómenntaður konungur steypir þjóð sinni í glötun,

og borgin blómstrar undir stjórn viturra.

4Yfirráð jarðar eru í hendi Drottins,

hann fær þau réttum manni á réttum tíma.

5Í hendi Drottins er hagsæld manns,

ráðamönnum veitir hann vegsemd.

Varað við hroka

6Reiðstu eigi náunga þínum

fyrir hvað eina sem hann gerir rangt,

lát eigi ofdramb stýra gerðum.

7Hroka hata Guð og menn,

ranglæti er hatursefni báðum.

8Frá einni þjóð til annarrar færast völd,

ofbeldi, hroki og ágirnd valda því.

[Ekkert er guðlausara en hinn ágjarni,

hann gæti selt sál sína.]

9Hví hreykir sér duft og aska

í búk sem hrörnar þegar í lifanda lífi?

10Langvinnur sjúkdómur gerir lækninn ráðþrota,

konungur í dag, nár að morgni.

11Í hlut sérhvers sem deyr

koma maðkar, flugur og lirfur.

12Að snúa frá Drottni er upphaf hroka mannsins,

er hjartað víkur frá skapara sínum.

13Því að syndin er uppspretta ofdrambs,

frá forhertum vellur viðurstyggð.

Vegna þessa sendir Drottinn fádæma hegningu

og gereyðir þeim sem svo er farið.

14Drottinn steypir voldugum úr hásætum

og setur hógværa í þeirra stað.

15Drottinn rífur upp þjóðir með rótum

og gróðursetur lítilláta í þeirra stað.

16Drottinn eyðir þjóðlöndum

og jafnar þau við jörðu.

17Hann upprætir þjóðir úr mannkyni og eyðir þeim

og þurrkar út minningu þeirra af jörðu.

18Ofdramb er mönnum eigi áskapað

né heiftaræði þeim sem af konu er fæddur.

Menn sem heiður ber

19Niðjum hverra ber vegsemd? Niðjum manna.

Niðjum hverra ber vegsemd? Þeirra sem óttast Drottin.

Niðjum hverra sæmir eigi heiður? Niðjum manna.

Niðjum hverra sæmir eigi heiður? Þeirra sem boðorðin brjóta.

20Í hópi bræðra er hinn fremsti heiðraður

en Drottinn heiðrar þá sem óttast hann.

21Guðsótti er upphaf þess að verða Guði þekkur

en þvermóðska og hroki upphaf höfnunar.

22Auðugum og virtum jafnt og fátækum

er öllum heiður af að óttast Drottin.

23Rangt er að fyrirlíta vitran fátækling

og óhæfa að hafa syndara í heiðri.

24Höfðingi, dómari og valdamaður eru virtir vel

en enginn þeirra tekur þó guðhræddum fram.

25Frjálsbornir munu þjóna vitrum þræli

og hygginn maður andmælir því ekki.

Lítillæti og sjálfsvirðing

26Gorta ekki af visku er þú gengur að verki,

lát eigi mikinn er að þér sverfur.

27Betra er að vinna og búa við nægtir

en að láta mikinn og líða skort.

28Barn, ver lítillátt en ber virðingu fyrir sjálfu þér,

met sjálft þig svo sem þér ber.

29Hver sýknar þann sem áfellist sig?

Hver virðir þann sem vanvirðir sig?

30Fátækur er virtur af vitsmunum sínum,

auðugur fyrir efni sín.

31Sá sem er virtur þótt snauður sé,

hve miklu fremur ef auðugur væri?

Sá sem er vanvirtur þótt efnaður sé,

hve miklu fremur ef fátækur væri?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help