Jesaja 32 - Biblían (2007)

Réttlátur konungur

1Sjá, konungur mun ríkja með réttlæti

og höfðingjar stjórna samkvæmt lögum.

2Hver þeirra verður sem hlé fyrir vindi

og skjól fyrir skúrum

eins og vatnslækir í þurrlendi,

skuggi af háum hamri í skrælnuðu landi.

3Þá verða augu hinna sjáandi ekki lengur lukt

og eyru þeirra sem heyra munu hlusta.

4Hugur gálausra hlýtur dómgreind og þekkingu

og stamandi tunga talar skýrt og greinilega.

5Heimskinginn verður ekki framar kallaður göfugmenni

og hinn fláráði ekki talinn veglyndur.

6Því að heimskinginn talar heimsku

og hyggur á illt í hjarta sínu

svo að hann breytir óguðlega

og fer með fásinnu um Drottin.

Hann lætur svangan mann hungra

og neitar þyrstum um drykk.

7Vopn hins fláráða eru ill,

hann leggur á svívirðileg ráð

til að skaða hinn umkomulausa með lygi

þótt hinn fátæki sýni fram á að hann hafi rétt fyrir sér.

8En göfugmennið hefur göfug áform

og stendur fast á því sem göfugt er.

Áhyggjulausar konur

9Áhyggjulausu konur, rísið á fætur,

hlýðið á boðskap minn.

Andvaralausu dætur,

gefið gaum að ræðu minni.

10Eftir ár og dag munuð þér, hinar andvaralausu, skjálfa

því að vínberjatekjan bregst

og aldintekjan verður engin.

11Skjálfið, hinar áhyggjulausu, skelfist, hinar andvaralausu,

sviptið yður klæðum, standið naktar,

gyrðist hærusekk um lendar,

12berjið yður á brjóst og syrgið vegna hinna unaðslegu akra,

vínviðarins frjósama,

13akurlendis þjóðar minnar þar sem þyrnar og þistlar vaxa

og allra glaðværu húsanna í hinni glaummiklu borg.

14Því að höllin er yfirgefin,

ys og þys borgarinnar hljóðnaður.

Virkishæðin og varðturninn

verða fylgsni um aldur og ævi,

villiösnum til skemmtunar

og hjörðum haglendi.

Gjafir andans

15Þegar anda af hæðum verður úthellt yfir oss

og eyðimörkin verður að aldingarði

og aldingarðurinn telst skógur

16mun réttvísin setjast að í eyðimörkinni

og réttlætið búa í aldingarðinum.

17Ávöxtur réttlætisins verður friður

og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð.

18Þá mun þjóð mín búa í friðsælum heimkynnum,

í öruggum híbýlum, á næðisömum hvíldarstöðum,

19en skógurinn felldur með öllu

og borgin hrynur til grunna.

20Sælir munuð þér sem sáið við hvert vatn

og látið uxa og asna ganga sjálfala.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help