Amos 5 - Biblían (2007)

Harmljóð yfir Ísrael

1Heyrið þetta orð, þetta harmljóð, sem ég flyt um yður, Ísraelsmenn!

2Fallin er mærin Ísrael,

rís aldrei aftur,

flöt liggur hún á eigin landi,

enginn reisir hana upp.

3Því að svo segir Drottinn:

Sú borg, sem sendir út þúsund manna lið,

fær hundrað manna lið heim aftur,

sú, sem sendir út hundrað manna lið,

fær aðeins tíu menn heim aftur.

4Því að svo segir Drottinn við Ísraelsmenn:

Leitið mín og þér munuð lifa.

5Leitið ekki til Betel,

farið ekki til Gilgal,

haldið ekki yfir til Beerseba.

Því að Gilgal fer í útlegð

og Betel verður að engu.

6Leitið Drottins og þér munuð lifa.

Annars mun hann þrengja sér inn í ætt Jakobs

eins og eyðandi eldur

og enginn slekkur hann í Betel.

8Hann gerði sjöstjörnuna og Óríon

og breytir niðamyrkri í heiðan morgun

og degi í dimma nótt.

Hann kallar á hafið

og eys því á yfirborð jarðar,

Drottinn er nafn hans.

9Hann sendir eyðingu gegn hinum sterka

og tortíming kemur yfir víggirta borg.

Réttinum hallað

7Vei þeim sem breyta réttinum í malurt

og steypa réttlætinu til jarðar.

10Þeir hata þann sem fellir réttlátan dóm í borgarhliðinu

og forðast þann sem segir satt.

11Af því að þér takið vexti af landleigu lítilmagnans

og leggið skatt á kornuppskeru hans

munuð þér reisa hús úr höggnu grjóti

en ekki búa í þeim sjálfir,

gróðursetja afbragðs víngarða

en ekki drekka vínið sjálfir.

12Já, ég veit að glæpir yðar eru margir

og syndir yðar miklar.

Þér þröngvið þeim sem hefur á réttu að standa,

þiggið mútur og vísið hinum snauða frá réttinum.

13Þess vegna þegir hygginn maður á slíkri tíð

því að það er vond tíð.

14Leitið hins góða en ekki hins illa,

þá munuð þér lifa

og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður

eins og þér hafið sagt.

15Hatið hið illa og elskið hið góða,

eflið réttinn í borgarhliðinu.

Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá

sem eftir eru af ætt Jósefs.

Dagur Drottins

16Þess vegna segir Drottinn, Guð hersveitanna:

Harmað er á hverju torgi

og kveinað á hverju stræti: „Vei, vei!“

Akuryrkjumaðurinn er kvaddur til sorgarathafnar

og sá sem kann harmljóð er sóttur til að flytja þau.

17Í hverjum víngarði er kveinað

því að ég mun ganga um á meðal yðar,

segir Drottinn.

18Vei þeim sem hlakkar til dags Drottins.

Hvað færir dagur Drottins yður?

Hann færir myrkur, ekki ljós,

19líkt og maður flýi undan ljóni

en verði á vegi bjarndýrs,

komist heim og styðji hendi á vegg

og þá bíti hann eiturslanga.

20Færir dagur Drottins ekki myrkur í stað ljóss?

Hann er dimmur, ekki bjartur.

Rétt og röng guðsdýrkun

21Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.

Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.

22Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir

lít ég ekki við þeim,

né heldur matfórnum yðar af alikálfum.

23Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.

Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.

24Réttvísi skal streyma fram sem vatn

og réttlæti sem sírennandi lækur.

25Færðuð þér mér sláturfórnir og kornfórnir

þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni, Ísraelsmenn?

26Báruð þér þá Sikkút, konung yðar,

og Kevan, stjörnuguð yðar,

guði, sem þér hafið sjálfir búið til?

27Ég mun reka yður í útlegð austur fyrir Damaskus,

segir Drottinn, nafn hans er Guð hersveitanna.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help