Speki Salómons 18 - Biblían (2007)

1En hið skærasta ljós skein við þínum heilögu. Óvinirnir heyrðu raddir þeirra en sáu þá ekki. Þeir prísuðu þá sæla fyrir að hafa ekki þurft að þjást eins og þeir

2og voru þeim þakklátir fyrir að vinna sér ekki mein, þótt þeir hefðu verið illu beittir, og báðu fyrirgefningar á fjandskap sínum.

3Þú gafst Ísrael eldstólpa að vegvísi um ókunnan veg, sól sem skaðaði hann eigi á frægðarför.

4Hinir áttu það skilið að missa ljóssins og fjötrast myrkri. Þeir höfðu haldið föngnum börnum þínum sem áttu að miðla heiminum óforgengilegu ljósi lögmálsins.

Þessa nótt

5Þeir höfðu ákveðið að deyða ungbörn hinna heilögu. Þegar eitt barn var borið út og komst af refsaðir þú þeim og hreifst burt fjölda af börnum þeirra og tortímdir þeim hópum saman í voldugum bylgjum.

6Þessi nótt kom feðrum vorum ekki á óvart. Þeir áttu að vera fullkomlega vissir um og gleðjast yfir þeim fyrirheitum sem þeir treystu.

7Lýður þinn vænti frelsunar réttlátra og tortímingar óvina.

8Það sem þú refsaðir andstæðingunum með notaðir þú til að kalla okkur til þín og veita okkur sæmd.

9Heilög börn réttlátra feðra færðu fórnir í kyrrþey og gengu einum huga undir það guðdómlega lögmál að eitt skuli yfir alla hina heilögu ganga í meðbyr og andstreymi. Og þeir sungu þegar feðrunum lofsöng.

10Á móti kváðu við skerandi vein óvinanna, nístandi harmakvein yfir börnum sem þeir syrgðu.

11Þræll og húsbóndi hlutu sömu refsingu, eitt gekk yfir þegn og þengil.

12Allir stóðu þeir uppi með óteljandi nái sem beðið höfðu bana á sama hátt. Þeir sem eftir lifðu voru of fáir til að greftra líkin því að í einni svipan hafði blóma kynstofns þeirra verið eytt.

13Allt höfðu þeir vefengt vegna fjölkynngi sinnar. En þegar frumburðir þeirra dóu urðu þeir að viðurkenna að lýðurinn væri börn Guðs.

14Þegar djúp þögn grúfði yfir öllu og nóttin var að hálfu liðin hjá

15stökk þitt almáttuga orð frá konungshásæti þínu á himni niður á fordæmt landið. Það var eins og vígreifur bardagamaður

16og beitti hispurslausu boði þínu eins og hvöttu sverði. Þar sem það nam staðar deyddi það allt. Það nam við himin þegar það gekk á jörðu.

17Þá skelfdu óvinina skyndilega ægilegar draumsýnir og óvæntur ótti greip þá.

18Þar sem þeir lágu hálfdauðir hver um annan þveran gerðu þeir uppskátt fyrir hvaða sakir þeir dóu.

19Draumarnir, sem ollu þeim ofboði, höfðu birt þeim það fyrir fram. Þeir áttu ekki að farast án þess að vita hvers vegna þeir þjáðust.

20Hinir réttlátu fóru ekki heldur varhluta af dauðanum. Margir fórust í eyðimörkinni. Refsidómurinn varaði þó ekki lengi.

21Vammlaus maður kom þeim skjótt til hjálpar. Hann hafði bænir og friðþægingarfórnir frá helgiþjónustu sinni að vopni. Hann réðst gegn reiðinni, stöðvaði pláguna og sýndi með því að hann var þjónn þinn.

22Hann sigraði heiftina hvorki með líkamsþrótti né vopnavaldi heldur yfirbugaði hann með orði þann er refsar og minnti á eiða og sáttmála við feðurna.

23Þegar líkin höfðu hrannast upp tók hann sér stöðu, stöðvaði framrásina og varði leiðina til þeirra sem lifðu.

24Allan heiminn mátti sjá á skósíðum kyrtli hans. Frægð feðranna var greypt á fjórar raðir eðalsteina. Hátign þína gat að líta á ennisskrauti hans.

25Fyrir þessu hopaði eyðandinn, þetta skelfdi hann. Það eitt nægði að þeir höfðu fengið að reyna reiðina.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help