Esterarbók (með viðaukum) 6 - Biblían (2007)

Konungur heiðrar Mardokaí

1Um nóttina varnaði Drottinn konungi svefns. Bað hann þá ritara sinn að sækja annál stjórnarára sinna og lesa fyrir sig.

2Þar rakst hann á það sem skráð var um Mardokaí, að hann hefði greint Artaxerxesi frá því þegar tveir af geldingum konungs úr lífverðinum reyndu að ráða konung af dögum.

3Konungur sagði þá: „Hvaða vegtyllu eða sæmd höfum vér veitt Mardokaí?“ Þjónar hans svöruðu: „Þú hefur ekki auðsýnt honum neina.“

4Þegar konungur spurði nánar út í velgjörð Mardokaí kom Haman inn í hallargarðinn. „Hver er í hallargarðinum?“ spurði konungur. Haman var þá kominn til að biðja konung um að hengja Mardokaí í gálgann sem hann hafði útbúið.

5„Það er Haman sem stendur úti í hallargarðinum,“ svöruðu þjónar konungs. Konungur sagði þeim að kalla á hann.

6Síðan spurði hann Haman: „Hvað á ég að gera fyrir þann mann sem ég vil heiðra?“ Haman hugsaði með sér: „Hvern ætli konungur vilji heiðra nema þá mig?“

7Sagði hann við konung: „Vilji konungur sæma einhvern heiðri

8skal konungur láta þjóna sína sækja línskikkju sem konungur er vanur að bera og hest sem konungur situr gjarnan.

9Þetta skal konungur fá einhverjum helsta vini sínum og láta hann skrýða þann mann sem konungur elskar og styðja hann á bak hestinum. Síðan skal hrópað á aðalgötu borgarinnar: Þetta hlotnast hverjum þeim manni sem konungur heiðrar!“

10„Þetta er heillaráð,“ sagði konungur við Haman. „Einmitt þetta skalt þú gera fyrir Mardokaí Gyðing sem þjónar í garði hallarinnar. Slepptu engu af því sem þú nefndir.“

11Haman sótti skikkju og hest, skrýddi Mardokaí, lyfti honum á bak og lét hann síðan ríða eftir aðalgötu borgarinnar og hrópaði: „Þetta hlotnast hverjum þeim manni sem konungur heiðrar.“

12Að því búnu sneri Mardokaí aftur til hallarinnar en Haman fór mæddur heim til sín og huldi höfuðið.

13Haman sagði Sósöru konu sinni og vinum sínum hvað komið hefði fyrir sig. Vinir hans og kona sögðu við hann: „Ef þessi Mardokaí, sem þú ert tekinn að auðmýkja þig fyrir, er Gyðingur að þjóðerni verður það þér til falls. Ekki muntu geta staðið gegn honum því að lifandi Guð er með honum.“

14Í þeim töluðu orðum komu geldingarnir og sögðu Haman að hraða sér til veislunnar sem Ester hafði undirbúið.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help