Síraksbók 31 - Biblían (2007)

Auður veldur vanda

1Andvökur af auði eyða þrótti,

áhyggjur hans vegna firra svefni.

2Kvíði og áhyggjur varna svefns

en svefninn léttir sjúkdómsbyrði.

3Ríkur erfiðar við að safna auði

en nýtur gæða auðsins þegar hann hvílist.

4Fátækur erfiðar fyrir knappri lífsbjörg

og er hann hvílist líður hann skort.

5Sá er elskar gullið mun ekki réttlættur

og sá er eltist við gróða mun villast.

6Mörgum hefur gullið í ógæfu hrundið,

þeir hafa gengið glötun á vit.

7Gull er hrösunarhella þeim sem það heillar,

sérhver heimskingi hrasar um hana.

8Sæll er sá auðmaður sem reynist vammlaus

og gerði ei gullið að goði sínu.

9Hver er hann svo að vér megum óska honum heilla?

Hann vann afreksverk hjá þjóð sinni.

10Hver er sá fullkomni sem stóðst þá prófraun?

Honum skal verða það til upphefðar.

Hver gat syndgað en gerði það ekki,

valdið illu en lét það vera?

11Heill þess manns skal stöðug standa,

góðverk hans mun samkundan vegsama.

Um rétta hegðun við veisluborð

12Sitjir þú við borð sem hlaðið er krásum

skaltu ekki yfir því gína

né heldur segja: „Hér er af nægtum nóg.“

13Mundu að öfundarauga veldur illu.

Tekur nokkuð fram girnd augans?

Þess vegna fellir það tár.

14Teyg eigi hönd þína eftir því sem annar lítur,

þröngva þér ekki að skálinni um leið og hann.

15Sýn náunganum þá nærgætni sem þú æskir sjálfur,

vertu varfærinn á allan hátt.

16Et eins og maður það sem á borð er borið

og háma ekki í þig svo að þú vekir ekki viðbjóð.

17Hættu fyrstur fyrir hæversku sakir,

vertu eigi óseðjandi svo að þú hneykslir aðra.

18Þegar þú situr með mörgum til borðs,

vertu þá ekki fyrstur til að seilast til fanga.

19Sá sem er vel agaður lætur sér lítið nægja,

honum er ekki þungt er hann leggst til svefns.

20Hollur er svefninn þeim sem matast í hófi,

hann rís árla skýr í kolli.

Andvökumæðu, kveisustingi

og magaþrautir fær sá sem etur yfir sig.

21En hafi þér orðið illt af ofáti,

far þá út, sel upp og þér léttir.

22Hlýð á mig, barn, og óvirð mig eigi,

síðar mun þér sannast að ég réð heilt.

Sinntu hverju verki af kostgæfni,

þá mun heilsu þinni aldrei hætt.

23Lofsorð hlýtur sá sem veitir vel,

vitnisburður um örlæti hans mun óhagganlegur.

24Sá vekur kurr í borginni sem illa veitir,

hann fær aldrei nirfilsorðið af sér máð.

25Reyn eigi að sýnast kappi við víndrykkju,

vínið hefur margan að velli lagt.

26Aflinn reynir eggjárn í eldi

og vínið hjartað þegar oflátar deila.

27Vínið er manninum sem lífið sjálft,

neyti hann þess í öllu hófi.

Hvað er lífið þeim sem brestur vín?

Það var frá öndverðu ætlað mönnum til gleði.

28Hjartans yndi og gleði í sinni

er vín í hófi á hentugum tíma.

29Ofdrykkja veldur biturð í sinni

og leiðir til illsku og þjarks.

30Ölvun eykur heimskingja reiði uns hann hrasar,

hún eyðir þrótti og veldur sárum.

31Álasa eigi náunga þínum er þið sitjið að drykkju,

smána hann ekki þegar hann gleðst.

Mæl eigi til hans móðgunarorðum

og angra hann ekki með að krefja hann skuldar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help