Sálmarnir 65 - Icelandic Bible 1981

1Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

2Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon,

og við þig séu heitin efnd.

3Þú sem heyrir bænir,

til þín kemur allt hold.

4Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari,

en þú fyrirgafst afbrot vor.

5Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig

til þess að búa í forgörðum þínum,

að vér megum seðjast af gæðum húss þíns,

helgidómi musteris þíns.

6Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti,

þú Guð hjálpræðis vors,

þú athvarf allra jarðarinnar endimarka

og fjarlægra stranda,

7þú sem festir fjöllin með krafti þínum,

gyrtur styrkleika,

8þú sem stöðvar brimgný hafsins,

brimgnýinn í bylgjum þess

og háreystina í þjóðunum,

9svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín,

austrið og vestrið lætur þú fagna.

10Þú hefir vitjað landsins og vökvað það,

blessað það ríkulega

með læk Guðs, fullum af vatni,

þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess,

með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni,

og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13Það drýpur af heiðalöndunum,

og hæðirnar girðast fögnuði.

14Hagarnir klæðast hjörðum,

og dalirnir hyljast korni.

Allt fagnar og syngur.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help