Sálmarnir 17 - Icelandic Bible 1981

1Bæn Davíðs.

Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni,

hlýð á hróp mitt,

ljá eyra bæn minni,

er ég flyt með tállausum vörum.

2Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu,

augu þín sjá hvað rétt er.

3Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur,

reynir mig í eldi,

þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér,

munnur minn heldur sér í skefjum.

4Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna

forðast vegu ofbeldismannsins.

5Skref mín fylgdu sporum þínum,

mér skriðnaði ekki fótur.

6Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð,

hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

7Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis

við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

8Varðveit mig sem sjáaldur augans,

fel mig í skugga vængja þinna

9fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi,

fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað,

með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig,

þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12Þeir líkjast ljóni er langar í bráð,

ungu ljóni, er liggur í felum.

13Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður,

frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn,

undan mönnum heimsins,

sem hafa hlutskipti sitt í lífinu

og þú kviðfyllir gæðum þínum.

Þeir eru ríkir að sonum

og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt,

þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help