Sálmarnir 45 - Icelandic Bible 1981

1Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

2Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum,

ég flyt konungi kvæði mitt,

tunga mín er sem penni hraðritarans.

3Fegurri ert þú en mannanna börn,

yndisleik er úthellt yfir varir þínar,

fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

4Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja,

ljóma þínum og vegsemd.

5Sæk fram sigursæll

sakir tryggðar og réttlætis,

hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

6Örvar þínar eru hvesstar,

þjóðir falla að fótum þér,

fjandmenn konungs eru horfnir.

7Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi,

sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

8Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti,

fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig

með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

9Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði,

frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna,

konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11“Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt!

Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar,

því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13Frá Týrus munu menn koma með gjafir,

auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar.”

14Eintómt skraut er konungsdóttirin,

perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung,

meyjar fylgja henni,

vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði,

þær fara inn í höll konungs.

17Í stað feðra þinna komi synir þínir,

þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum,

þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help