Sálmarnir 31 - Icelandic Bible 1981

1Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,

lát mig aldrei verða til skammar.

Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

3hneig eyru þín til mín,

frelsa mig í skyndi,

ver mér verndarbjarg,

vígi mér til hjálpar.

4Því að þú ert bjarg mitt og vígi,

og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

5Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig,

því að þú ert vörn mín.

6Í þínar hendur fel ég anda minn,

þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

7Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð,

en Drottni treysti ég.

8Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni,

því að þú hefir litið á eymd mína,

gefið gætur að sálarneyð minni

9og eigi ofurselt mig óvinunum,

en sett fót minn á víðlendi.

10Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur,

döpruð af harmi eru augu mín,

sál mín og líkami.

11Ár mín líða í harmi

og líf mitt í andvörpum,

mér förlast kraftur sakir sektar minnar,

og bein mín tærast.

12Ég er að spotti öllum óvinum mínum,

til háðungar nábúum mínum

og skelfing kunningjum mínum:

þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra,

ég er sem ónýtt ker.

14Ég heyri illyrði margra,

- skelfing er allt um kring -

þeir bera ráð sín saman móti mér,

hyggja á að svipta mig lífi.

15En ég treysti þér, Drottinn,

ég segi: “Þú ert Guð minn!”

16Í þinni hendi eru stundir mínar,

frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn,

hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar,

því að ég ákalla þig.

Lát hina guðlausu verða til skammar,

hverfa hljóða til Heljar.

19Lát lygavarirnar þagna,

þær er mæla drambyrði gegn réttlátum

með hroka og fyrirlitningu.

20Hversu mikil er gæska þín,

er þú hefir geymt þeim er óttast þig,

og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér

frammi fyrir mönnunum.

21Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns

fyrir svikráðum manna,

felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22Lofaður sé Drottinn,

því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23Ég hugsaði í angist minni:

“Ég er burtrekinn frá augum þínum.”

En samt heyrðir þú grátraust mína,

er ég hrópaði til þín.

24Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu,

Drottinn verndar trúfasta,

en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25Verið öruggir og hughraustir,

allir þér er vonið á Drottin.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help